Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir segir að í ljósi stöðu far­aldursins sé ekki ráð­lagt að slaka mikið á að­gerðum sem gripið hefur verið til hér á landi til að hefta út­breiðslu Co­vid en ríkis­stjórnin kemur til með að til­kynna á­fram­haldandi að­gerðir innan­lands síðar í dag, sem taka þá gildi eftir 13. ágúst.

„Mér finnst það frekar aug­ljóst að það sé ekki mikið ráð­rúm til að slaka mikið á á þessari stundu en annars finnst mér að við ættum að bíða með það þar til stjórn­völd eru búin að ræða um til­lögurnar,“ segir Þór­ólfur í sam­tali við Frétta­blaðið, að­spurður um hvað honum þætti best að gera að svo stöddu.

200 manna sam­komu­bann er nú í gildi á landinu öllu, auk eins metra reglu og grímu­skyldu innan­dyra þar sem ekki er hægt að tryggja við­unandi fjar­lægð. Þær tak­markanir tóku gildi í lok júlí eftir að fjöldi smita fóru að greinast en þá höfðu engar tak­markanir verið í gildi í mánuð.

Leggur ekki fram beinar aðgerðir sjálfur

Að sögn Þór­ólfs hefur hann sent nokkur minnis­blöð til stjórn­valda en hann hefur ekki lagt til neinar beinar að­gerðir þar sem hann hefur sagt að boltinn sé nú hjá ríkis­stjórninni. Minnis­blöð hans varða helst stöðu far­aldursins, sem þarf að taka til­lit til á hverjum tíma, og fram­tíðar­sótt­varnir.

„Við erum að horfa upp á það að Co­vid verði á­fram með okkur næstu mánuði eða ár og þannig að við þurfum hugsa hvernig við viljum hafa þetta, getum við haft ein­hvern stöðug­leika á þessu og þar hef ég sent hug­myndir og vanga­veltur til stjórn­valda bæði hvað varðar landa­mærin og innan­lands­að­gerðir,“ segir Þór­ólfur.

Þurfum sennilega að lifa við takmarkanir til lengri tíma

Að­spurður um hvort lands­menn muni þurfa að lifa með tak­mörkunum sam­hliða veirunni næstu ár segir Þór­ólfur að ef ný af­brigði halda á­fram að dúkka upp og bólu­efnin koma ekki í veg fyrir smit nema hjá um helmingi bólu­settra þá gæti svo verið.

„Við ætlum ekki að missa far­aldurinn úr böndum hérna innan­lands þannig að óbólu­settir fari að veikjast mjög al­var­lega, og jafn­vel bólu­settir við­kvæmir ein­staklingar sem hafa ekki svarað bólu­setningu nógu vel, þá held ég að við þurfum að hugsa að við þurfum senni­lega að búa við ein­hverjar tak­markanir af ein­hverjum toga til lengri tíma.“