„Að komast lífs af úr þessum hremmingum var ekki mér að þakka,“ segir hinn 33 ára Svavar Georgs­son. Ó­hætt er að segja að líf Svavars hafi tekið miklum og já­kvæðum breytingum á síðustu mánuðum; nú hefur hann þak yfir höfuðið, er ekki lengur þræll fíknarinnar og stefnir á nám – fimm­tán mánuðum eftir að hafa búið í rifnu og úr sér gengnu tjaldi í Breið­holti svo mánuðum skiptir.

Vef­miðlar, Hring­braut meðal annars, fjölluðu á dögunum um slæma um­gengni í rjóðri einu neðar­lega í Breið­holti, skammt frá Mjóddinni, eftir að íbúi lét til sín taka og birti myndir í Face­book­hópi íbúa. Þar mátti ein­mitt sjá úr sér gengið og rifið tjald og annað laus­legt. At­huga­semd ungs manns undir þræðinum vakti at­hygli, en þar lýsti maðurinn iðrun sinni; sagði að þarna hefði hann búið um langa hríð og ætlun hans hafi ekki verið að skilja eftir sig sóða­skap. Um­ræddur maður er Svavar Georgs­son, sem stígur nú fram í við­tali við Frétta­blaðið og segir sögu sína.

Fyrir­myndirnar voru á barnum

„Mín neyslu­saga er bæði löng og leiðin­leg,“ segir Svavar og and­varpar þegar hann er spurður hvort hann hafi byrjað ungur í neyslu sem svo hafi undið upp á sig. „Til að verða alkó­hól­isti þá þarftu að hefja neyslu og vera í neyslu í á­kveðið langan tíma til að breytingar eigi sér stað í heilanum. Ég byrjaði mjög ungur að nota efni. Byrjaði að nota á­fengi og var svo kominn út í neyslu efna,“ segir Svavar, sem segist telja að hann hafi verið átta ára þegar hann bragðaði fyrst á­fengi.

Hann ólst upp í Vest­manna­eyjum og bjó þar framan af ævi sinni en var einnig sendur í sveitir, meðal annars vegna hegðunar­vanda. „Sem krakki í Vest­manna­eyjum fannst mér mjög spennandi að hanga fyrir utan barina og sjá menn vera að slást. Þetta voru svona fyrir­myndirnar í mínu lífi. Ég ætlaði að verða stór og sterkur og geta lamið frá mér, eins og gengur og gerist. Maður heyrir stundum í aug­lýsingunum að orku­drykkurinn Red Bull veiti vængi og efnin gerðu það svo sannar­lega í mínu lífi. Maður þorði að tala við stelpurnar og maður breyttist úr litlum feimnum dreng yfir í ó­arga­dýr sem þorði að taka af skarið.“

Svavar segir að hann hafi komið frá á­gætri fjöl­skyldu og hann hafi verið alinn þannig upp að hafa góð gildi í há­vegum. „For­eldrar mínir eru góðir og ég var rosa­lega mikið hjá ömmu minni, sem er besta konan í mínu lífi. Ég hef ekki hitt heiðar­legri konu. En það skiptir í raun og veru engu máli hvaðan þú kemur, flottu heimili eða ein­hverri bragga­blokk. Til marks um það eru biskup Ís­lands í em­bætti og for­seti Ís­lands einu starfs­stéttirnar sem hafa ekki farið inn í með­ferð hjá SÁÁ. Full­trúar allra annarra starfs­stétta hafa farið í með­ferð hjá SÁÁ vegna á­fengis- eða fíkni­efna­vanda.“

Svaf með símann í nær­buxunum

Myndirnar af greninu í Breið­holti, staðnum sem Svavar kallaði heimili sitt í vel á annað ár, vöktu mikla at­hygli. Hann flutti burt, ef svo má segja, þann 15. nóvember 2019 en þann dag komst hann inn í lang­þráða með­ferð á Vogi. Þá hafði hann dvalið í Breið­holtinu, undir berum himni svo að segja, í um eitt og hálft ár.

„Áður en ég kom þangað var ég í gisti­skýlinu í Reykja­vík. Þar var staðan bara ekki góð. Fyrir það fyrsta þá gat ég ekki haft neinn í kringum mig, ég treysti engum og hvað þá sjálfum mér. Það voru allir að ræna alla þarna,“ segir Svavar, sem rifjar upp eitt grát­bros­legt dæmi um það sem við­gekkst í Gisti­skýlinu. „Í eitt skiptið svaf ég með símann minn inni á pungnum svo honum yrði ekki stolið. Hann var samt horfinn þegar ég vaknaði daginn eftir, ég veit ekki hvernig það gerðist,“ segir Svavar og hlær en bætir svo við í öllum al­var­legri tón: „En í dag, þegar ég horfi til baka á veru mína í Gisti­skýlinu, þá er þetta bara geymsla fyrir fólk. Ég hefði alveg eins getað verið inni í fangelsi, ég fékk samt að ganga frjáls um göturnar og allt það, en það var ekkert gert fyrir okkur. Við fengum húsa­skjól og einn bakka af mat á dag á­samt því að vera rændir af þeim sem voru þarna.“

Svavar hefur undanfarna 15 mánuði verið í mikilli og strangri sjálfsvinnu sem hann viðurkennir að hafi verið allt annað en auðveld.
Mynd/Valli

Bæturnar fljótar að klárast

Svavar taldi hags­munum sínum betur borgið annars staðar og á endanum á­kvað hann að koma sér fyrir í um­ræddu rjóðri í Breið­holtinu. Kosturinn var sá að hann þurfti ekki að borga neina leigu og gat um frjálst höfuð strokið og verið í sinni neyslu nokkurn veginn ó­á­reittur. Hann fékk um 160 þúsund krónur í fjár­hags­að­stoð á mánuði og voru þeir peningar fljótir að fara í dóp, eða tvo til þrjá daga. Veran í tjaldinu var enginn dans á rósum enda getur verið býsna kalt á Ís­landi, sér­stak­lega yfir vetrar­tímann.

„Ég man til dæmis eftir því að einu sinni þá dett ég um band á tjaldinu. Ég var í myrkrinu eitt­hvað að at­hafna mig við tjaldið og ríf tjaldið þannig að ég gat ekki lokað því. Ég var ekki með nein við­gerðar­sett til að laga það þannig að tjaldið var bara opið í öllum veðrum.“

Svavar naut þó góðs af því að hafa kynnst starfi Frú Ragn­heiðar sem starf­rækt er af Rauða krossinum. Verk­efnið hefur meðal annars þann til­gang að ná til jaðar­settra hópa í sam­fé­laginu, til dæmis hús­næðis­lausra ein­stak­linga og þeirra sem nota vímu­efni um æð, og bjóða þeim skaða­minnkandi þjónustu, heil­brigðis­þjónustu og nála­skipti­þjónustu til dæmis. Starfs­menn þar sáu Svavari fyrir hlýjum fatnaði svo hann yrði hrein­lega ekki úti.

Hefði gert allt til að út­vega efni

Til að fjár­magna eigin neyslu framdi Svavar af­brot auk þess að selja eitur­lyf, til að drýgja eigin skammta og hafa betur efni á þeim. Bæturnar sem hann fékk dugðu skammt, ör­fáa daga, og eftir það tók harkið við fram að næstu mánaða­mótum. Svavar var í virki­lega harðri neyslu en fyrst og fremst var um að ræða ríta­lín, kókaín og am­feta­mín og efni til að halda honum gangandi eins og hann orðar það.

„Í 99% til­fella var ég að nota efni til að laga frá­hvörf eða komast hjá þeim. Ég var eigin­lega aldrei að nota mér til skemmtunar. Efnin eru löngu hætt að virka og ég þurfti alltaf meira og meira til að bústa kerfið upp.“ Svavar var mjög langt leiddur fíkill og segist í raun hafa gert hvað sem er til að verða sér úti um næsta skammt.

„Ef ég hefði grætt eitur­lyf á því að stela sleikjó af litlu barni þá hefði ég bara gert það. Alveg sama hvað ég hefði þurft að gera. Ef ég hefði þurft að kála ein­hverjum,“ segir hann og bætir við að í svona djúpri neyslu sé erfitt að ráða við hlutina.

Frú Ragn­heiður var guðs­gjöf

Svavar segist eiga Frú Ragn­heiði mikið að þakka en hann kynntist starfinu þegar hann dvaldi í Gisti­skýlinu. „Þar fann ég svo sterkt fyrir því að ég varð ekki fyrir neinum for­dómum, ég var ekki dæmdur. Áður en ég kynntist Frú Ragn­heiði, sem var guðs­gjöf, var ég í­trekað búinn að tala við for­stöðu­menn á Gisti­skýlinu um að hjálpa mér að komast inn í með­ferð en án árangurs. Út frá því get ég eigin­lega sagt að Gisti­skýlið hafi bara verið hálf­gerð geymsla fyrir fíkla.“

Hann segir að starfs­menn Frú Ragn­heiðar hafi sótt um í með­ferð fyrir hann og tekið þau sím­töl við fag­aðila sem þurfti að taka uns hann komst inn á Vog. Svavar var orðinn mjög illa farinn vegna stífrar neyslu. „Það var mjög illa komið fyrir mér. Ég var orðinn al­gjör­lega tann­laus. Þegar þú ert í þessari neyslu þá étur það upp tennurnar, þær brotna og losna bara í heilu lagi. Það var ekki mikið um salernis­að­stöðu eða tann­burstun á þessum tíma,“ segir hann og bætir við að hann hafi verið langt undir kjör­þyngd enda gat hann illa nærst al­menni­lega sökum tann­leysis.

„Í raun og veru átti bara eitt­hvað eitt eftir að klikka í líkamanum sem var ó­aftur­kræft. Það var í raun það eina sem átti eftir að gerast. Líf mitt var orðið eins og 300 tonna lest með engar bremsur á leiðinni beint niður brekku.“

Hann rifjar upp að viku áður en hann komst í með­ferð hafi gert leiðin­legt veður á höfuð­borgar­svæðinu. Starfs­fólk Frú Ragn­heiðar hlúði að honum og kom reglu­lega til að at­huga hvort hann væri ekki örugg­lega enn á lífi. „Þetta var fólk sem var gjör­sam­lega komið út fyrir sitt verk­svið en var með hjartað á réttum stað. Þessir englar í myrkrinu.“

Nokkur smá­hýsi ekki lausn

Svavari er tíð­rætt um við­horfið sem stundum er til þeirra sem eru í neyslu harðra fíkni­efna hér á landi. Við­mótið hjá Frú Ragn­heiði hafi verið mann­legt en stundum brenni við að litið sé niður á fíkla.

„Ég er búinn að sættast við þetta fólk en ég var rosa­lega reiður í mörg ár.“

„Því miður þá hafa ekki allir þak yfir höfuðið og sæng. Það er allt of mikið um það. Mér finnst stjórn­völd mega gera mun betur í þessum málum, til dæmis hvað varðar Gisti­skýlið, og að­stoða þessa ein­stak­linga betur. Ég veit til dæmis að í Grafar­vogi eru komin smá­hýsi sem er alveg frá­bært, en nokkur smá­hýsi eru ekki að fara að dekka allan þann vanda sem er til staðar í þjóð­fé­laginu,“ segir hann og bætir við að þeir sem eru í vanda vegna vímu­efna­notkunar burðist oftar en ekki með ein­hverjar gamlar byrðar á öxlunum.

„Oft og tíðum má rekja vandann til ein­hvers úr for­tíðinni sem fólk getur ekki horfst í augu við og leitar frekar í deyfinguna.“

Laminn upp úr svefni

Svavar segir að sjálfur hafi hann orðið fyrir fólsku­legu of­beldi á einu af þeim heimilum sem hann var sendur á sem ung­lingur. „Ég var sendur í sveit og í raun og veru skilinn eftir með eitt stórt spurningar­merki í hausnum: „Af hverju er verið að senda mig hingað, til fólks sem ég þekki ekki neitt?“ Á þessum tíma sem ég var þarna í sveitinni varð ég fyrir hrotta­legu of­beldi, líkam­legu og and­legu, og það voru strákar þarna sem urðu fyrir kyn­ferðis­legu of­beldi líka. Maður var laminn upp úr svefni og beittur á­sökunum um eitt­hvað sem maður gerði ekki eða gerði,“ segir hann. Hann tekur fram að hann sé í sam­skiptum við drengi á þessu sama heimili um of­beldið sem við­gekkst. „Ég er búinn að sættast við þetta fólk en ég var rosa­lega reiður í mörg ár.“

Stöðug sjálfs­vinna

Undan­farna 15 mánuði hefur Svavar verið í mikilli sjálfs­vinnu og hann viður­kennir að þetta hafi ekki verið auð­veld vinna. Af orðum hans að dæma hefur vinnan skilað sér svo um munar og heyrist á­kveðnin vel í rödd hans. „Fyrstu vikurnar voru erfiðar og fyrsta árið. Þetta verður samt alltaf auð­veldara og auð­veldara. Ég keyrði bara á tólf spora sam­tökin, fór að taka þátt, fylgja þeim sem voru komnir lengra en ég í starfinu, starfaði mikið í sam­tökunum; hellti upp á kaffi, vaskaði upp eftir fundina, raðaði stólum fyrir og eftir fundi, fékk mér trúnaðar­mann sem er á virki­lega góðum stað í lífinu. Ég bað hann um að­stoð og fór að gera eins og hann og það hefur koll­varpað lífi mínu til hins betra. Þessi von­leysis­fíkill sem var í þessum hræði­legu að­stæðum – núna er hann að fara að mennta sig,“ segir Svavar stoltur enda má hann vera það.

Ætlar að fara í nám

Svavar hefur að undan­förnu dvalið í Drauma­setrinu, á­fanga­heimili sem ein­blínir á ein­stak­linga sem hafa orðið fyrir ein­hvers konar niður­broti og eru að endur­heimta sig eftir neyslu. Svavar kann mjög vel við sig þar.

„Fólk sem kemur hingað er ekki að mæta for­dómum, það fá allir sitt tæki­færi, sama hver for­tíð þeirra er. Hér er góður hópur og virki­lega nota­legt og heimilis­legt til að byrja þessa edrú­göngu.“ Svavar er nú kominn í endur­hæfingar­úr­ræði sem heitir Grettis­tak og er auk þess byrjaður á nám­skeiðum hjá Hring­sjá. Hann á fjögur yndis­leg börn, sem eru á aldrinum þriggja til tíu ára, með þremur konum og fær hann að hitta þau eins mikið og hann vill. „Þau voru að bíða eftir pabba sínum allan þennan tíma,“ segir hann með mjúkri rödd og bætir við að sam­bandið við barns­mæðurnar sé þar að auki yfir­leitt gott. Hann hefur verið að hjálpa föður sínum til sjós að undan­förnu en viður­kennir að mesta vinnan þessa dagana fari í hann sjálfan. Hann er þó farinn að líta til fram­tíðar og er til dæmis að skoða nokkra hluti varðandi nám.

„Ég hef gaman af vél­virkjun og öllu í sam­bandi við vélar í bátum og bílum. Ég hef líka fengist við málm­smíði og bý yfir á­gætri þekkingu á henni. Það er eitt­hvað sem ég get nýtt mér í náinni fram­tíð. Að­spurður hvar hann sjái sig eftir tíu ár segist Svavar ein­blína á nokkra hluti til að byrja með. „Þá ætla ég að vera kominn í eigin hús­næði og búinn að stofna fjöl­skyldu. Ég horfi ekki á neitt annað en það. Ég vil vera öðrum innan handar sem þurfa á að halda og vera sóma­sam­legur sam­fé­lags­þegn.“

Svavar dvelur nú á Draumasetrinu og kann vel við sig. Hér er hann með stofnendum þess, Ólafi Hauki og Elínu Örnu.
Mynd/Valli

Stutt á milli kaffi­bolla og bjórs

Svavar þekkir það þó að hafa verið edrú áður og fallið. Hann dvaldi á Drauma­setrinu frá 2013 til 2014 eftir með­ferð á Vogi og Vík. Eins og hann lýsir sjálfur var sú edrú­mennska byggð á hálf­gerðum brauð­fótum og er hann nú reynslunni ríkari.

„Á þessum tíma var ég mikið að vinna, oft tíu tíma vinnu­dag, og þegar maður er í slíkri vinnu þá er ekki mikill tími fyrir sjálfs­vinnu. Ég mætti þó á 12 spora fundi en var ekki eins ein­lægur í þeirri vinnu og núna. Fundirnir byggjast á því að treysta Guði og hjálpa öðrum ó­eigin­gjarnt. Ég var ekki að því í þeirri edrú­mennsku og þar af leiðandi var sú edrú­mennska byggð á brauð­fótum. Þetta er eins og með krabba­meins­sjúk­ling sem hættir að taka lyfin sín. Hvað gerist? Það sama á við um fíkilinn og prógrammið, sem er í raun lyfið hans. Það er vissu­lega góð reynsla að búa að í dag en að sama skapi ömur­legt að hafa þurft að fara út af brautinni,“ segir hann og líkir edrú­mennskunni við fullt starf í raun.

„Ef þú ert ekki að gera það sem þú átt að vera að gera þá veikist hausinn. Allar eðli­legar pælingar um lífið brenglast og þú ferð jafn­vel að gera hluti sem þú átt ekki að gera; keyra próf­laus, eiga sam­skipti við aðra sem eru ekki á góðum stað í lífinu eða heim­sækja barinn sem þú varst vanur að heim­sækja. Í slíkum að­stæðum er í raun mjög stutt á milli þess að vera með kaffi­bolla eða freistast til að fá sér bjór. Þetta er sjúk­dómur sjálfs­blekkingarinnar.“

Sjúk­dómurinn er miskunnar­laus

Svavar vill að það komi skýrt fram að yfir­völd fari í á­kveðna nafla­skoðun og geri betur í þessum mála­flokki. Margt gott starf sé þó unnið en betur megi ef duga skal. „Mér finnst ekki nóg að planta niður kofum úti um allan bæ og segja bara: „Farið þangað.“ Það þarf að verða ein­hver rót­tæk sál­ræn breyting í lífi þessara ein­stak­linga. Margir af þessum ein­stak­lingum hafa upp­lifað á­föll í lífinu; nauðganir, of­beldi, séð slæma hluti og leitað í flöskuna frekar en að takast á við vandann,“ segir Svavar og bendir á að 90% þeirra sem sitja í fangelsum landsins séu þar inni vegna ein­hvers sem tengist fíkni­efnum.

„Staðan í þjóð­fé­laginu gæti verið svo marg­falt betri. Auð­vitað vill enginn vera á þessum stað, sjúk­dómurinn er miskunnar­laus og honum er skít­sama um það hvort þú eigir börn, fjöl­skyldu eða hús. Eina mark­miðið hjá sjúk­dómnum er að rústa lífi þínu, einn dag í einu. En það er alltaf þessi von og hún má ekki slökkna.“