Páll Matthías­son, for­stjóri Land­spítalans, segir að af verk­falli hjúkrunar­fræðinga megi ein­fald­lega ekki verða í ljósi kórónu­veirufar­aldursins. Hjúkrunar­fræðingar sam­þykktu í dag að fara í ó­tíma­bundið verk­fall þann 22. júní ef samninga­nefndir Fé­lags ís­lenskra hjúkrunar­fræðinga (Fíh) og ríkisins ná ekki saman fyrir þann tíma.

„Fátt er eins slæmt í rekstri sjúkra­húsa eða heil­brigðis­þjónustu yfir­leitt og verk­föll. Sér í lagi lykil­stétta eins og hjúkrunar­fræðingar sannar­lega eru,“ segir Páll í viku­legum for­stjóra­pistli sínum sem birtist í dag. „Hjúkrunar­fræðingar eru hryggjar­stykki í starfi spítalans og án þeirra rekum við ekki sjúkra­hús.“

Hann segir að sumarið verði á­skorun að vanda en að það sé á­nægju­legt að svo virðist sem sam­dráttur í starf­semi spítalans verði með minnsta móti. „Það styrkir okkur ef til þess kemur að spítalinn þurfi að spítalinn þurfi að sinna co­vid-veiku fólki.“

„Í þessu ljósi er niður­staða at­kvæða­greiðslu Fé­lags ís­lenskra hjúkrunar­fræðinga sér­stakt á­hyggju­efni,“ heldur hann á­fram. „Á­byrgð samnings­aðila er gríðar­leg. Af verk­falli má ekki verða, svo ein­falt er það. Áður en það brestur á verða samnings­aðilar að ná saman og ég hvet þá ein­dregið til að ljúka samningum í tíma.

Páll bendir á að far­aldurinn geisi enn víða. Hér á Ís­landi búum við hins vegar við þau gæði að geta byggt á reynslu síðustu mánaða ef önnur bylgja kemur til landsins.