Þann 6. ágúst sl. tilkynntu Lyfjastofnun og embætti landlæknis um að ákveðið hafi verið að kalla til óháða aðila til að rannsaka gaumgæfilega þau tilfelli sem varða röskun á tíðahring kvenna í kjölfar bólusetningar gegn COVID-19 og hafa verið tilkynnt til Lyfjastofnunar.
Markmið rannsóknarinnar er að leita skýringa á orsökum og veita þeim konum sem um ræðir stuðning og viðeigandi ráð. Nefndin hefur nýverið skilað niðurstöðum til Lyfjastofnunar og embættis landlæknis.
Samkvæmt nefndinni er ekki hægt að útiloka að bólusetning hafi raskað tíðahring kvenna í nokkrum tilfellum.
„Nefndin telur að í nokkrum tilvikum er varðar blæðingar í kringum tíðahvörf og hluta tilvika óreglulegra/langvarandi blæðinga sé ekki með óyggjandi hætti hægt að útiloka tengsl við bólusetningu. Af þeim voru tvær tilkynningar tengdar blæðingum í kringum tíðahvörf og fimm vörðuðu óreglulegar og/eða langvarandi blæðingar,“ segir í niðurstöðukafla skýrslunnar.
Þörf á frekari rannsókn
Nefndin áréttar að í öllum tilvikum þyrfti frekari athugun og rannsókn læknis að eiga sér stað til að útiloka þekktar ástæður slíkra einkenna. Þá sé mjög erfitt að meta slík tengsl þar sem ekki liggja fyrir faraldsfræðilegar upplýsingar um sambærileg einkenni í þýðinu. Nefndin telur ólíklegt að orsakasamhengi sé á milli þessara fimm tilkynninga um alvarlegar aukaverkanir og bólusetningar.
Í niðurstöðum nefndarinnar er ítarlega farið yfir fyrirliggjandi þekkingu úr rannsóknum á áhrif COVID-19 sýkingar á segamyndun (myndun blóðtappa) og segamyndun í kjölfar bólusetningar gegn COVID-19. Niðurstaðan er sú að áhætta fyrir segamyndun er margfalt meiri hjá þeim sem sýkjast af COVID-19 og að ávinningur bólusetninga umfram áhættu sé augljós eins og alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur ítrekað bent á.
Þá var skoðuð hætta á aukinni blæðingatilhneigingu. Fram kemur að sýnt hefur verið fram á mjög vægt aukna áhættu tengda bólusetningum gegn COVID-19 og myndunar eða versnunar á sjálfsofnæmissjúkdómi s.k. sjálfvakinni blóðflögufæð.
Þessi sjúkdómur getur valdið auknum tíðablæðingum en yfirleitt líka öðrum blæðingum s.s. nefblæðingum. Við ítarlega yfirferð nefndarinnar á öllum tilkynningum tengdum blæðingum fundust engin tengsl við ofangreinda þekkta aukaverkun.
Nefndin segir niðurstöður nýlega birtrar ítarlegrar samantektar á áhættu á blóðflögufæð, blóðsegamyndunar í tengslum við bólusetningu samanborið við COVID-19 vera sláandi.
Hægt er að lesa niðurstöðurnar í heild á vef Lyfjastofnunar.