Töluverð umræða hefur skapast á svokölluðum bumbuhópum á Facebook, hópum þar sem barnshafandi konur skiptast á reynslusögum og ábendingum.

Á þriðja tug kvenna hafa greint frá því að hafa orðið fyrir fitufordómum af hálfu ljósmæðra í mæðravernd. Hafi þær verið með niðrandi athugasemdir varðandi þyngd og holdafar þeirra og sagt þeim að þær þurfi að léttast og huga að mataræðinu. Sumar hafa lýst viðhorfinu svo slæmu að þær hafi þurft að leita til annarra ljósmóður og kvíði jafnframt fyrir því að mæta í mæðraskoðun þar sem þyngd þeirra er yfirleitt aðalumræðuefnið.

Myndin tengist fréttinni ekki beint. Barnshafandi konur mæta í mæravernd á sinni heilsugæslu.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Bryndís Ásta Bragadóttir, sérfræðiljósmóðir í meðgönguvernd með áherslu á sykursýki á meðgöngu, segir að ljósmæður fái allar fræðslu um fordóma í sínu námi.

„Við þurfum að viðurkenna að allir hafa fordóma fyrir einhverju og erum beðnar um að ígrunda vel fyrir hverju við erum með fordóma,“ segir Bryndís Ásta.

Hún segir það vera trú sína að allar ljósmæður starfi fagmannlega og séu að vanda sig eftir bestu getu.

„Við verðum samt að geta verið hreinskilnar við skjólstæðinga okkar. Margir einstaklingar hugsa ekki um hvort þeir séu að borða hollt yfir höfuð og það er mjög eðlilegt að ljósmæður spyrji konur út í hvað þær eru að borða. Ég starfa í sykursýkisteyminu á Landspítala og þar erum við til dæmis mikið að spá í mataræði og hreyfingu.“

Hún segist skilja konur í yfirþyngd vel, verandi sjálf í sömu sporum. Málefnið sé viðkvæmt enda langi engri konu að vera í yfirþyngd. „Ég held að flestum konum langi til að gera lífstílsbreytingar til að bæta heilsuna þó erfitt sé að breyta venjum okkar. Ég hef velt því fyrir mér hvort að barnshafandi konur í yfirþyngd upplifi það sem fitufordóma þegar ljósmæður tala við þær eins og að þær viti ekki að þær eru í yfirþyngd og sé slétt sama um það,“ bætir Bryndís Ásta við.

Bryndís Ásta Bragadóttir er sérfræðiljósmóðir í meðgönguvernd með áherslu á sykursýki á meðgöngu.
Fréttablaðið/aðsend

Ekki að hvetja konur í megrun

Hún segir að ljósmæður fylgist með þyngdaraukningu kvenna til að ganga úr skugga um að hún sé eðlileg. „Það eru til ákveðin viðmið sem segja til um eðlilega þyngdaraukningu. Ef kona er búin að þyngjast óeðlilega mikið þá má nefna það þó maður hvetji ekki konur í megrun á meðgöngu,“ segir Bryndís Ásta.

Hún segir að sumar konur eigi það til að gleyma sér á meðgöngu, finnist þær mega borða mikið sælgæti og séu ekki mikið að spá í þyngdinni.

„Þegar þyngdaraukning er óeðlilega mikil þá fer maður að spyrja hvort það séu einhverjar breytingar sem konan treystir sér til að tileinka sér til að hægja á þyngdaraukningunni. Þetta er að sjálfsögðu eitthvað sem maður fer mjög varlega í, allir geta látið eitthvað klaufalegt út úr sér en við reynum að vanda okkur. Ljósmæður eru oft að skýla sér á bak við leiðbeiningar þegar þær ræða þessi mál. Okkur finnst við þurfa að afsaka okkur,“ segir Bryndís Ásta.

Hún segist þó ekki vita til að margar konur hafi tilkynnt um fitufordóma af hálfu ljósmóður.

Það er fullkomlega eðlilegt og æskilegt að þyngjast á meðgöngu. Ráðleggingar um hæfilega þyngdaraukningu á meðgöngu taka mið af þyngd fyrir þungun og eru tengdar rannsóknum á heilsu móður og barns.
Fréttblaðið/ Getty images.

Líkamsþyngdarstuðullinn

Margir hafa gagnrýnt líkamsþyngdarstuðulinn eða BMI stuðulinn svokallaða sem notast er við til að mæla heilsufarsáhættu kvenna á meðgöngu. Vilja margir meina að hann gefi skakka mynd af því hvað sé talið heilbrigt og hvað ekki.

Bryndís segir að þrátt fyrir að BMI stuðullinn sé ekki fullkominn þá sé hann betri en kílóatalan ein og sér.

„Við notum hann með opnum huga enda vitum við að hann er ekki algildur. Hann gerir okkur þó kleift að vita hvað við höfum í höndunum þegar við fáum konur inn sem eru til dæms 60 BMI (mjög hátt) eða 18 BMI (lágt). Það gefur okkur góða vísbendingu hvort konan sé í yfirþyngd sem skiptir vissulega máli á meðgöngu."

Skjáskot/heilsugæslan

Bryndís Ásta starfar sem fyrr segir í sykursýkiteymi Landspítalans þar sem tekið er á móti konum sem glíma við sykursýki á meðgöngu. Hún hefur starfað þar síðastliðinn fimm ár og segist muna eftir þremur konum sem hafi leitað til sín á þeim tíma, sem hafi fengið leiðinlegt viðmót frá ljósmóður á heilsugæslu. Það sé því ekki algengt að slík máli komi upp hjá þeim en þau geri það vissulega.

Ekki fordómar heldur áhyggjur

Bryndís telur að það viðmót sem konur upplifi af hálfu ljósmæðra og lækna séu ekki niðrandi fordómar heldur áhyggjur.

„Við höfum vissulega áhyggjur af þróuninni. Lífstílstengdir sjúkdómar eins og sykursýki II eru að aukast gríðarlega og tökum við eftir mikilli fjölgun hjá okkur í mæðraverndinni. Þá hefur konum með meðgöngusykursýki fjölgað töluvert síðastliðinn ár en tíðnin hefur þrefaldast síðastliðinn áratug.“

Bryndís segir að aukin tíðni meðgöngusykursýki á Íslandi skýrist að miklu leyti af því að við hreyfum okkur minna, en einnig er hlutfall einfaldra kolvetna hærra í fæðuvalinu, aldur mæðra í meðgöngu fer hækkandi og tíðni yfirþyngdar eða offitu er að aukast.

Auknir áhættuþættir hjá konum í yfirþyngd

Bryndís segir að lokum að það sé mikilvægt að umræðan fari faglega fram og að konum líði vel þegar þær mæti í meðgönguvernd og geti treyst á ljósmæður. Hún trúi því að ljósmæður reyni alltaf sitt besta til að fara varlega í hlutina og hafi heilsu móðurinnar að leiðarljósi. Áhættuþættir á meðgöngu hjá konum sem eru í yfirþyngd séu margir og þeim verði að fylgjast með.

Konur í yfirþyngd eiga í aukinni hættu á að missa fóstur snemma og auknar líkur eru á fósturgöllum. Aðrir áhættuþættir eru meðgöngusykursýki, blóðtappi, meðgöngueitrun og háþrýstingur. Þá eru auknar líkur á að konur fái sýkingu og þurfi að fara í keisara. Þessir áhættuþættir byggja á rannsóknum sem hafa verið gerðar í gegnum árin og eru ekki byggðar á fordómum.