Miklar umræður eru nú í lokuðu Facebook-grúppunni Vegan Ísland vegna myndskeiðs af manni sem aflífar hænu með því að slá henni annaðhvort utan í vegg eða ofan á bárujárn með þeim afleiðingum að hausinn fer af. Þar veltir fólk því fyrir sér hvort um sé að ræða dýraníð eða ómannúðlega aflífun hænunnar.

Ekki er ljóst hvenær myndbandið er tekið upp eða hvar nákvæmlega á landinu. En í því heyrist maður segja „Hausinn af“ og fólk ræða á íslensku þannig það má eflaust gera ráð fyrir því að um sé að ræða atvik sem á sér stað hér á landi.

Erfitt að meta út frá myndskeiðinu

Brigitte Brugger dýralæknir alifuglasjúkdóma sem starfar hjá Matvælastofnun segir að erfitt sé að meta það út frá myndskeiðinu hvort fuglinn sé skorinn á háls á bárujárninu eða hvort honum sé veitt högg með þeim afleiðingum að hausinn fari af. Því vildi hún því ekki fullyrða um það hvort væri verið að aflífa fuglinn með ómannúðlegum hætti eða ekki.

Ef um er að ræða hálsskurð á bárujárninu án þess að dýrið sé rotað áður, er það bannað. 

Brigitte ítrekar því það sem kemur fram í leiðbeiningum um aflífun alifugla um að hænur séu fyrst rotaðar með höfuðhöggi og síðan teknar úr hálslið.

Hún segir þó að við slíkar aðgerðir geti það gerst að hausinn fari af og það sé ekkert að því.

Myndbandið má sjá hér að neðan. Viðkvæmir eru varaðir við innihaldi myndskeiðsins.