Lisa Marie Presley, söngkonan og dóttir rokkkóngsins Elvis Presley, lést á fimmtudag á sjúkrahúsi í Kaliforníu. Hún var eini erfingi Graceland, eins frægasta hús Bandaríkjanna þar sem faðir hennar bjó þar til hann féll frá árið 1977.
Elvis keypti Graceland í mars 1957 fyrir sjálfan sig, foreldra sína og ömmu. Hann greiddi rúmlega 100 þúsund Bandaríkjadali fyrir húsið og bjó öll fjölskyldan þar næstu 20 árin.
Eftir að Elvis dó erfðu faðir hans Vernon, amma hans Minnie Mae og Lisa Marie húsið. Vernon og Minnie létust árið 1979 og 1980 og var þá Lisa eini erfingi hússins. Árið 1982 var svo ákveðið að breyta Graceland í safn.
Lisa var aðeins níu ára gömul þegar faðir henndar dó en árið 1993 tók hún við sem eigandi Graceland á 25 ára afmælisdeginum sínum. Safnið hafði þá verið starfrækt í tæpan áratug og var virði Graceland í kringum 100 milljónir Bandaríkjadali.
Fjórir skilnaðir að baki
Lisa hafði fyrir andlát sitt staðið í erfiðum skilnaði við fjórða eiginmann sinn, Michael Lockwood og krafðist hann meðal annars um mánaðarlegar meðlagsgreiðslur upp á 40 þúsund Bandaríkjadali. Michael hélt því þó fram að Lisa ætti mun meiri pening en hún gaf fram í lagaskjölum.
Hún hafði einnig verið gift Michael Jackson, Danny Keough og Nicolas Cage og á einum tímapunkti sagðist hún hafa skuldað 16 milljónir Bandaríkjadali. Árið 2003 réð hún Barry Siegel til að stjórna fjármálum hennar og tveimur árum seinna seldi hann 85 prósenta hlut hennar í Elvis Presley Enterprises.
Lisa skilur eftir sig þrjú börn og er búist við því að þau muni taka við sem erfingjar Graceland. Hollywood stjarnan Riley Keough, sem er 33 ára og 14 ára tvíburadætur hennar Harper Vivienne og Finley.
Lisa átti upprunalega fjögur börn en sonur hennar Benjamín framdi sjálfsvíg árið 2020, þá aðeins 27 ára gamall.
Ef einstaklingar glíma við sjálfsvígshugsanir er bent er á Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið er allan sólarhringinn. Einnig má hafa samband við Píeta-samtökin sem veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Píeta samtökunum.