Hertar samkomutakmarkanir tóku gildi á miðnætti og mega nú tíu manns koma saman. Skólar verða áfram opnir og vinna samkvæmt reglugerð en viðburðir með hraðprófum eru ekki lengur heimilir. Sundstaðir og líkamsræktarstöðvar verða opin en þó aðeins með heimild fyrir helming leyfilegs fjölda gesta.

Spilasölum og skemmtistöðum hefur verið gert að loka en veitingastaðir mega taka við tuttugu gestum í rými til klukkan 21, allir gestir skulu hafa yfirgefið staðinn ekki seinna en klukkan 22.

Arnar Þór Gíslason, eigandi fjölda veitinga- og skemmtistaða í Reykjavík, segir það mikinn skell að fá svo harðar aðgerðir „í andlitið“ eftir að hafa verið undir hörðum reglum í að verða tvö ár.

„Við erum að þjónusta viðskiptavini sem eru eldri en 20 ára og eru flestallir þríbólusettir. Svo finnst mér vanta milliveginn á milli þess að fá að hafa opið og að vera gert að loka algjörlega,“ segir Arnar Þór.

Þá segir hann skjóta skökku við að loka þurfi börum algjörlega sem ekki selja mat á meðan sportbörum sem selja áfengar veitingar og mat sé heimilt að hafa opið.

„Hver er til að mynda munurinn á því að panta langborð á sportbar og drekka hálfan lítra af bjór og gera það sama á bar eða krá? Það eru að mínu viti engin rök að baki því að það sé líklegra að fólk smitist, hvort sem það situr inni á krá um 22.00 eða síðdegis á sportbar,“ segir Arnar Þór.

Arnar Þór Gíslason, veitinga- og skemmtistaðaeigandi
Fréttablaðið/Anton

English Pub er einn þeirra staða sem Arnar Þór rekur en Austurátt, félagið sem rekur staðinn, kærði sóttvarnaaðgerðir síðustu tveggja ára. Íslenska ríkið var sýknað af skaðabótakröfu Austuráttar í því máli.

Dómurinn er ekki sammála forsendum fyrir kröfu Austuráttar sem voru á þá leið að heilbrigðisráðherra hafi brotið jafnræðisreglu þegar krám og skemmtistöðum var gert að loka en veitingastöðum og kaffihúsum sem hafa áfengisleyfi á sama tíma leyft að hafa sína staði opna með skilyrðum.

Fram kemur í dómnum að rekja hafi mátt verulegan fjölda þeirra smita greindust um miðjan september árið 2020 til kráa og skemmtistaða. Enn fremur liggi fyrir gögn erlendis frá sem sýna fram á að líklegst sé að mist að smitas og dreifa smiti á skemmtistöðum og krám.

Af þeim sökum taldi dómurinn málefnaleg rök hníga til þess að gera greinarmun á krám og skemmtistöðum annars vegar, og veitingastöðum og kaffihúsum hins vegar við sóttvarnaraðgerðir.

Ríkisstjórnin kynnti í gær sérstakar aðgerðir fyrir veitingageirann samhliða hertum samkomutakmörkunum. Um er að ræða efnahagsaðgerðir sem lúta að fresti á staðgreiðslu skatta og tryggingargjalds og framlengingu umsóknarfrests vegna almennra viðspyrnu­styrkja fyrir nóvember 2021.

Enn fremur er unnið að framlengingu lokunarstyrkja og að frumvarpi um sérstakan veitingastyrk sem fyrirtækjum stæði til boða vegna minni tekna frá desember 2021 út mars 2022.