Í dag, 15. apríl, eiga ökumenn samkvæmt reglugerð að skipta nagladekkjum út fyrir heilsárs- eða sumardekk. Í tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að samkvæmt því megi lögreglan byrja að sekta þá sem enn eru á nagladekkjum, en að á höfuðborgarsvæðinu sé ekki búið að „taka upp sektarbækurnar“.

Þar segir að þótt ekki séu miklar líkur á hálku þá séu páskar á næsta leiti og þá megi búast við einhverju hreti sem geti haft áhrif á akstursskilyrði. Lögreglan lofar því að lokum að láta ökumenn vita hvenær þau ætli að byrja að sekta fyrir að vera enn á nagladekkjum.

Tilkynningu lögreglunnar má sjá hér að neðan.

Veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir í hugleiðingum dagsins að um páskahelgina megi búast við kólnandi veðri og að úrkoma gæti breyst úr rigningu í slyddu. Þótt það kólni er þó ekki gert ráð fyrir að veður hafi áhrif á ferðalög.