Breytt verðskrá Íslandspósts tekur gildi 1. nóvember næstkomandi þar sem verðbreytingar verða á sendingu fjölpósts og 0 til 10 kílóa pakka.

Ástæða breytinganna eru ný lög sem kveða á um að gjald fyrir sendingar endurspegli raunkostnað, en áður var kostnaður jafnaður út þvert yfir landið með stuðningi frá ríkinu. Gildistakan þýðir að sums staðar mun verð hækka en lækka á öðrum stöðum.

„Þetta er snúið og landsbyggðin er að fara að borga nánast allan reikninginn sem ríkið hefur verið að niðurgreiða fram til þessa,“ segir Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Íslandspósts. „Ríkið ákveður auðvitað hvernig og hvað er niðurgreitt og þetta kemur sér vel fyrir suma, en þetta eru auðvitað engar gleðifréttir fyrir fólk í dreifbýlinu.“