„Það er ekki land­töku­fólkinu að þakka að við séum öll á lífi í dag, þau bara kveikja í og ráðast á hópinn og svo er þeim bara al­ger­lega sama,“ segir bar­áttu­konan Björk Vil­helms­dóttir nokkuð skelkuð í sam­tali við Frétta­blaðið. Hún varð í gær vitni að svo al­var­legu of­beldi, af hálfu land­töku­fólks í Palestínu, að það jaðraði við hryðju­verk að hennar sögn.

Björk er með­limur friðar­þjónustu kvenna og er stödd í Palestínu til að veita verndandi við­veru og að­stoða við ó­lífu­upp­skeru sem enn er megin tekju­lind palestínskra bænda. Í gær var hún upp­tekin við ó­lífu­tínslu ná­lægt land­töku­byggðinni Yitzhar, sem er al­ræmd fyrir rót­tækar og of­beldis­fullar að­gerðir gegn bændum, þegar kveikt var í upp­skerunni og ráðist á hluta hópsins. Litlu mátti muna að ein­hver hefði orðið eldinum að bráð en yfir þúsund ó­lífu­tré brunnu á innan við klukku­stund.

Skipu­lögð árás gegn sak­lausu fólki

„Okkur var svo brugðið yfir því að hvorki líf né lífs­viður­væri fólksins skipti land­töku­fólkið nokkru máli.“ Þá voru með­limir friðar­þjónustunnar sam­mála um að þrátt fyrir að of­beldi af þessu tagi sé nánast dag­legt brauð í Palestínu þá hafi ein­beitti brota­viljinn komið þeim á ó­vart. „Eldurinn breiddist svo hratt út og á svo stóru svæði að maður fann að það var ekki land­töku­fólkinu að þakka að við sluppum öll lifandi frá þessu, því maður veit ekkert hvert svona eldur fer.“

Björk segir það hafa komið á ó­vart hversu vel á­rásin var skipu­lögð en eldar voru kveiktir á mörgum stöðum á sama tíma og eins og áður kom fram varð stórt svæði eldinum að bráð. „Það var alveg ljóst að ísraelskum yfir­völdum stóð ekki á sama en þau sendu út bæði flug­vélar með kæfandi efnum og fullt af slökkvi­bílum.“ Hún sagði við­búnað á svæðinu hafa verið gífur­legan. „Í dag heyrðum við sögu­sagnir þess efnis að flug­vélarnar hafi að­eins verið sendar til að koma í veg fyrir að land­töku­byggðin sjálf yrði eldinum að bráð.“

Björk var gert að yfirgefa svæðið í dag.

Eldurinn blossaði upp rétt hjá

Björk lýsti í stuttu máli hversu litlu mátti muna að verr hafi farið í gær. „Við erum við tínslu þegar allt í einu hleypur að okkur palestínskur maður og segir „flýtið ykkur, flýtið ykkur, það er byrjað að brenna.“ Reykjar­lyktin hafi þá borist að vitum þeirra og bóndinn sem þær fylgdu sagt þeim að fara strax niður.

„Svo byrjum við að fara niður hæðina með ó­lífu­pokana og þá blossar upp þessi rosa­legi eldur sem breiðist hratt yfir.“ Björk dreif sig á­samt föru­neyti sínu niður en ekki var laust við að hún upp­lifði hræðslu við að sjá eldinn í slíku ná­vígi.

Komu blóðugir niður hlíðina

Ekki var að­eins ráðist gegn lífs­viður­væri fólks á svæðinu en á­kveðinn hópur land­töku­fólks tók sig einnig til og sótti að hópi bænda, og barði þau meðal annars með grjóti og felgulykli úr stáli. „Við byrjum á því að sjá einn mann sem er blóðugur um höfuðið niður hlíðina og á eftir honum kemur annar. Þeir segja okkur það að tuttugu manna hópur land­töku­fólks hafi komið að þeim og ráðist á þau með bar­eflum þar sem þau voru við tínslu.“ Hópurinn sem ráðist var á var sá næsti við hliðina á hópi Bjarkar á akrinum en konurnar í friðar­þjónustunni sluppu blessunar­lega við á­verka.

Í ljós kom að minnst fimm manns höfðu slasast í á­rásinni. Einn palestínskur bóndi brenndist illa þegar hann reyndi að slökkva eldinn en hann varð einnig fyrir bar­eflum land­töku­fólksins. Þá hand­leggs­brotnaði einn með­limur friðar­þjónustu rabbína sem ætlaði sér að vernda bændurna.

Margir eldar voru kveiktir á sama tíma til að eyðileggja sem mest af uppskeru palestínskra bænda.

Engin virðing borin fyrir lífi


„Auð­vitað vita land­nemar að það var fullt af fólki á svæðinu,“ segir Björk og nefnir að á­samt bændum og fjöl­skyldum þeirra hafi verið tæp­lega tuttugu al­þjóð­legir sjálf­boða­liðar í hlíðinni. „Maður upp­lifði svo sterkt að líf alls þessa fólks sem var við tínslu skipti brennu­vargana engu máli,“ í­trekar Björk.

„Þetta gerðist allt saman uppi á hæð sem er í nánd við land­töku­byggðina Yitzhar, sem hefur löngum verið fræg fyrir of­beldi gegn bændum.“ Land­töku­byggðin sé ein­mitt á­stæðan fyrir veru friðar­þjónustunnar á svæðinu. „Þrátt fyrir að ég hafi séð enda­lausar á­líka hlíðar brenna í landinu þá hef ég aldrei upp­lifað það á eigin skinni,“ segir Björk og sagði erfitt að í­mynda sér slíkar að­stæður.

Þessi ísraelski friðarsinni sýnir áverka eftir átökin.

Tínt í kapp við tímann


Að sögn Bjarkar fóru hún og konurnar aftur að akrinum á­samt bóndanum um það bil klukku­stund eftir brunann en bóndinn vildi ólmur ná inn ó­lífunum áður en næsti bruni ætti sér stað. „Í minna en 50 metra fjar­lægð var jaðar svæðisins sem brann og á meðan rauk úr rústum ó­lífu­trjánna tíndum við ó­lífur í kapp við tímann.“

Ár­lega er kveikt í ó­lífu­upp­skeru palestínskra bænda til að gera þeim lífið leitt. „Bændur hafa löngum misst land undir land­töku­byggðir og svo reynir land­töku­fólk oft að­koma í veg fyrir upp­skeru nærri sér til þess að geta stækkað land­töku­byggðirnar,“ segir Björk og bætir við að á hverju ári taki land­töku­byggðirnar stærri bita af Vestur­bakkanum.

Björk fór aftur á­samt bóndanum að sviðna land­svæðinu í dag og ætlaði sér að taka myndir. „Bóndinn vildi það ekki, hann lagði á­herslu á að nýta tíman í að tína þær ó­lífur sem enn voru við jaðra verndar­svæðisins.“ Stuttu eftir að þau byrjuðu tínsluna mættu her­menn á svæðið og þá var ekki nokkur leið að komast inn á svæðið.

Sviðin jörð blasti víðs vegar við eftir eldanna í gær.

Erfiðara með hverju árinu

Þá hefur það sannað sig að við­vera vest­rænna sjálf­boða­liða geti oft komið í veg fyrir eða alla­vega minnkað of­beldi gagn­vart bændum sem huga að ó­lífu­trjám sínum. „Þess vegna er al­gengt að fólk komi hingað þegar ó­lífu­upp­skeran á sér stað,“ segir Björk en þetta er fimmta upp­skeran sem hún er við­stödd. Á hverju ári er upp­skeran minni og erfiðara að tryggja öryggi bænda að sögn Bjarkar.

Bændur þurfa sam­eigin­legt leyfi ísraelskra og palestínskra yfir­valda til að tína ná­lægt land­töku­byggðum og fá oft mjög tak­markaðan tíma til að sinna upp­skerunni. „Þess vegna reyna þau að nýta hverja mínútu sem gefst.“

Ó­lífur meira en bara tekju­lind

Ó­lífur eru helsta land­búnaðar­fram­leiðsla Palestínu­manna og ein af þeirra helstu tekju­lindum. „Þetta er enn að miklu leiti bænda­sam­fé­lag.“ Auk þess á ó­lífu­rækt sér djúpar rætur í þjóðar­sögu Palestínu og henni fylgja margar hefðir. Þá eru mörg trjánna yfir hundruð ára gömul og að sögn Bjarkar er enn að finna tré sem voru uppi á tímum Jesú, og eru yfir tvö þúsund ára gömul.

„Á þessu svæði verða trén ekki svo gömul þar sem land­töku­fólk brennir þau jafn óðum,“ segir Björk. „Land­töku­fólkið trúir því í ein­lægni að þau eigi þetta land og þau eru til­búin að gera hvað sem er til að ná höndum yfir meira land­svæði.“ Að lokum segir Björk það ekki þýða að gefast upp gegn of­beldinu og mun hún halda bar­áttunni ó­trauð á­fram.

Konurnar í friðarþjónstinni að störfum við ólífutónslu.