„Það er álit mitt að ekki séu fyrir hendi fullnægjandi heimildir í lögum til vistunar á öryggisgangi réttargeðdeildar, eins og því úrræði hefur verið lýst af hálfu Landspítala,“ segir í nýju áliti umboðsmanns Alþingis.

Frumkvæðisathugun umboðsmanns Alþingis hófst meðal annars vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um vistun og aðbúnað sjúklinga á öryggisgangi réttargeðdeildar á Kleppi á Landspítala „þar sem einkum dvelja menn sem dæmdir hafa verið til vistunar á „viðeigandi hæli“ á grundvelli hegningarlaga“, eins og segir í áliti umboðsmanns.

Umboðsmaður segir engar sértækar reglur að finna í gildandi lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum um nánari málsmeðferð við töku ákvarðana um vistun á öryggisgangi deildarinnar eða möguleikum sjúklings til endurskoðunar.

„Téður skortur á lagalegri umgjörð og aðhaldi kann að skapa hættu á því að vistun á öryggisgangi verði lengri en efni standa til auk þess sem líkur á misbeitingu úrræðisins verða óhjákvæmilega meiri en ella,“ útskýrir umboðsmaður sem kveðst því árétta fyrri tilmæli til heilbrigðisráðherra, dómsmálaráðherra og Alþingis um að tekin verði afstaða til þess hvort og þá hvernig rétt sé að bregðast við skorti á lagaheimildum, „ef á annað borð sé talið nauðsynlegt að viðhafa þá starfshætti á réttargeðdeild Landspítala sem frá er greint, og eftir atvikum á lokuðum deildum annarra heilbrigðisstofnana“.