Kamilla Sig­ríður Jósefs­dóttir, stað­gengill sótt­varna­læknis, segir ekki tíma­bært að herða sótt­varnar­að­gerðir í aftur þrátt fyrir að smitum fari ótt fjöl­gangi í sam­fé­laginu, á­stæðan sé að of stutt er síðan nú­verandi að­gerðir voru teknar í gildi.

„Það er varla kominn sólar­hringur og ekki kominn sólar­hringur af reynslu þannig að það er ekki tíma­bært að ætla það,“ sagði Kamilla á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna í svari við spurningu blaða­manns um hvort mögu­lega þyrfti að herða að­gerðir og taka aftur upp tveggja metra reglu.

Hún sagði jafn­framt að ekki væri nein sér­stök við­miðunar­tala um þann fjölda smita sem greina þyrfti til að herða að­gerðir að nýju. Þá bindi sótt­varnar­yfir­völd vonir við að hægt verði að ná utan um far­aldurinn með sótt­kví en búið sé að hnika til við­miðum um sótt­kví fyrir bólu­setta.

Alma Möller, land­læknir, bætti við að nauð­syn­legt væri að sjá hvort að álag myndi aukast á heil­brigðis­kerfið áður en farið verði út í frekari að­gerðir.

„Ef inn­lögnum fer að fjölga á sjúkra­húsið og ég tala nú ekki um á gjör­gæslu þá auð­vitað gæti þurft að endur­skoða þessar að­gerðir,“ sagði Alma.

Ís­land verður senni­lega appel­sínu­gult

Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn hjá al­manna­vörnum, sagðist búast við því að Ís­land myndi breytast yfir í appel­sínu­gult á nýju korti Sótt­varna­stofnunar Evrópu sem verður upp­fært á fimmtu­dag. Hann sagði þó ó­mögu­legt að spá fyrir um mögu­legar af­leiðingar þess.

„Það er bara ó­mögu­legt að segja hvaða á­hrif það hefur vegna þess að það eru ekkert öll lönd að fara eftir því. Það er nánast hvert einasta land í Evrópu með sínar eigin reglur og við­mið þannig að það verður bara að koma í ljós hvaða af­leiðingar það hefur,“ sagði Víðir.

Fréttablaðið/Ernir

Ekki útilokað að herða þurfi aðgerðir síðar

Að­spurð um hvort að nú­verandi staða væri von­brigði í ljósi þess að meiri­hluti þjóðarinnar sé orðinn bólu­settur sagði land­læknir að staðan væri að öllum líkindum enn verri ef ekki væri fyrir bólu­setningar.

„Auð­vitað eru það von­brigði en þau væru auð­vitað enn sárari ef ekki væri búið að bólu­setja svona marga, því við sjáum klár­lega hve mikil á­hrif bólu­setningin hefur á veikindi. Við sjáum það annars staðar frá að inn­lögnum fjölgar engan veginn í takti við fjölda smita og ekki dauðs­föllum.“

Að­spurð um af hverju sótt­varnar­að­gerðir væru vægari nú en áður þegar sam­bæri­legur fjöldi smita hefur komið upp sagði land­læknir að mark­miðið til skemmri tíma væri að ná tökum og yfir­sýn yfir far­aldurinn og fækka smitum.

„Að­gerðirnar eru ekki eins harðar og áður með sömu tölur út af bólu­setningum en auð­vitað vitum við þetta ekki alveg. Við erum auð­vitað bara núna að kaupa svo­lítinn tíma til að átta okkur á hvað Delta er skætt og fylgjast með hvernig gengur hjá okkur og annars staðar. En það hefur ekki verið úti­lokað að gæti þurft að herða að­gerðir ef smitum fjölgar enn fremur, sér­stak­lega ef fólk fer að veikjast mikið,“ sagði Alma.

Ó­fyrir­sjáan­leiki og ó­vissa ein­kenni allra krísa

Víðir var spurður að því hvort það hafi verið mis­tök hjá stjórn­völdum að af­létta öllum sótt­varnar­að­gerðum í lok júní og gefa lands­mönnum vonir um að hægt væri að lifa án tak­marka í sumar. Hann sagði að­gerðirnar yfir allan far­aldurinn alltaf hafa byggst á þeirri þekkingu og reynslu sem til staðar voru á hverjum tíma.

„Við bundum öll vonir við á­kveðna hluti fyrir rúmum mánuði síðan og við erum bara í nýjum veru­leika og nýjum stað­reyndum og nýrri þekkingu og þannig verður það á­fram. Ein­kenni á öllum krísum er ó­fyrir­sjáan­leiki og ó­vissa og þannig verður þetta að ein­hverju leyti á­fram. Við getum búið okkur til ein­hvern fyrir­sjáan­leika en hann verður aldrei allur og þannig verður það bara því miður,“ sagði Víðir.

Hann bætti við að vonandi væri hægt að eiga fleiri stundir eins og síðustu fjórar vikur en ó­mögu­legt væri að segja hversu dýr­keypt það verður fyrr en uppi er staðið.

Fréttin var uppfærð kl. 12:33.