Tísku­bylgja eða „trend“ ríður nú yfir TikTok þar sem ung­lingar klæða sig upp og mæta á myndina Skó­sveinarnir: Gru rís upp sem nú er sýnd í kvik­­mynda­húsum. Er­­lendis hafa ung­lingar verið til það mikilla vand­ræða að kvik­­mynda­hús hafa tekið til þeirra ráða að banna jakka­fata­­klædda ung­linga.

Tísku­bylgjan gengur undir myllu­merkinu #gentlemin­ions. Þá eru unglingar hvattir til að mæta í jakkafötum á sýninguna, stórir hópar hafa mætt á sýningar og verið með mikil læti og kastað hlutum í sýningartjaldið.

„Það hefur verið gaman að fylgjast með hópum af ung­lingum mæta í jakka­fötum á myndina,“ segir Lilja Ósk Dið­riks­dóttir, markaðs- og rekstrar­stjóri kvikmyndahúsa Senu, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Lilja segir kvartanir hafi borist í kringum frum­sýninguna á myndinni. „Þá var þetta ekki alveg að fara saman með fjöl­skyldu­fólki en það var mikið fjör í hópnum sem voru að mæta í jakka­fötum,“ segir hún.

Bættu við sýningum

Lilja segir Smárabíó hafa brugðist við því með því að bæta við sýningum með ensku tali á kvöldin. „Þá hafa þessir hópar verið að mæta þangað og al­mennt séð verið í góðu stuði,“ segir hún.

Að­spurð að því hvort það hafi komið til tals að banna jakka­fata­klæddum ung­lingum að sjá myndina svarar Lilja því neitandi. „Ekki enn sem komið er, af því að við upp­lifum þetta hafa lagast eftir að við bættum við sýningum með ensku tali,“ segir hún.

„Svo lengi sem þetta heldur á­fram að vera í góðu yfir­læti og allir kurteisir að þá eru þau bara vel­komin,“ segir Lilja.

Í samtali við Fréttablaðið segir Alfreð Ásberg Árnason, framkvæmdastjóri Samfilm, að þau hafi einnig tekið eftir jakkafataklæddum unglingum á sýningum Skósveinanna.

Hann segir það einna helst hafa verið í Sambíóunum í Kringlunni og í Reykjanesbæ en nánast ekkert á Akureyri. Hann segir starfsmenn kvikmyndahúsanna ekki hafa tekið eftir einhverjum sérstökum látum eða ókurteisi frá hópunum.

Hann segir að svo lengi sem þau sem mæta eru til friðs og ekki með læti sé ekkert hægt að mótmæla því að þau mæti skemmtilega klædd.

Miklar truflanir á sýningum er­lendis

Í Bret­landi hefur staðan verið önnur. BBC greinir frá því að sum kvik­­mynda­hús hafa gripið til þeirra ör­­þrifa­ráða að banna jakka­fata­­klæddum ung­lingum að sjá myndina.

Starfs­­menn bresku kvik­­mynda­húsanna segja ung­lingana hafa verið með læti á meðan sýningu stendur og að þau hafi stundað það að kasta hlutum í sýningar­­tjaldið. Starfs­­mennirnir segja kvik­­mynda­húsin vilja tryggja að yngsti aldurs­hópurinn geti sótt myndina án truflunar.

Banda­ríska kvik­­mynda­verið Uni­ver­­sal Pictures þakkaði fólki fyrir að mæta í jakka­fötum á myndina. „Til allra sem mæta í jakka­fötum á Skó­sveinana: Við sjáum ykkur og við elskum ykkur,“ skrifaði kvik­mynda­verið í færslu á Twitter.