„Ég ber fullt traust til míns formanns,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra um niðurstöður nýrrar könnunar Prósents fyrir Fréttablaðið þar sem Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og forsætisráðherra nýtur aðeins trausts 17,5 prósents þjóðarinnar.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, nýt nú mests trausts samkvæmt könnuninni, eða 25,4 prósents.
Hvað varðar þessa breytingu segir Guðmundur að hann telji að Kristrún hafi byr undir sína vængi því hún er ný,
„Hún er nýkomin inn, er í stjórnarandstöðu og er með byr með sér,“ segir Guðmundur Ingi.
Erindi VG skýrt
Spurður um erindi Vinstri hreyfingarinnar í ríkisstjórn segir hann að það sé skýrt og að það hafi ekki komið til greina að slíta samstarfinu.
„Erindi VG er í ríkisstjórn er stuðla að því, eins og við höfum verið að gera, við breyttum skattkerfinu og konum á þriggja þrepa skattkerfi með framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki sem ætluðu sér að setja á eins þrepa skattkerfi þegar þau voru ein í ríkisstjórn,“ segir Guðmundur Ingi og að auk þess hafi þau unnið ötullega að umhverfismálum og sérstaklega í hans tíð sem umhverfisráðherra og að auk þess hafi þau stigið mörg skref í heilbrigðismálum þegar Svandís Svavarsdóttir var heilbrigðisráðherra á síðasta kjörtímabili.
„Við erum að umbylt því kerfi sem gildir nú fyrir örorkulífeyrisþega,“ segir Guðmundur og að flokkurinn stefni að því að lögfesta Samning sameinuðu þjóðanna um fatlað fólk.
„Svona gæti maður lengi talið. Þannig erindi VG í ríkisstjórn er mjög skýrt. Það er að stuðla að betri og jafnari tækifærum fyrir fólkið í landinu, sama hvort það er horft til mennta, kjara eða tækifæra.“
Hefur komið til greina að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu?
„Þegar þú ert í ríkisstjórn þá þarftu að standa saman í bæði erfiðum og auðveldum málum og ég veit ekki hvers vegna þetta sveiflast svona núna og get ekki útskýrt það frekar. Við höfum reynt að vinna úr okkar ágreiningsmálum. Það teljum við betra fyrir þau verkefni sem við vinnum að,“ segir Guðmundur Ingi og að sér til stuðnings hafi ríkisstjórnin haft ítarlegan stjórnarsáttmála með mikilvægum verkefnum sem séu í forgrunni.
„Við reynum að ná málamiðlunum og sáttum í þeim ágreiningsefnum sem auðvitað koma upp í ríkisstjórnarsamstarfi. Ekki síst á milli flokka sem hafa talsvert mismunandi skoðanir og lífssýn,“ segir hann að lokum.