Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, ítrekar við fólk að ferðast sem minnst um páskana vegna COVID-19 faraldursins en mikil áhersla hefur verið lögð á það að fólk haldi sig heima um helgina. Víðir ræddi um stöðuna í Bítinu á Bylgjunni í morgun og þau tilmæli sem fólk er beðið eftir að fylgja yfir páskana.

Hann greindi frá því að hafa heyrt af fólki sem ætlaði sér að fá ættingja sem eru á hjúkrunarheimilunum heim í páskamatinn og skila þeim síðan aftur á heimilin. „Þetta er náttúrulega ekkert að ganga upp, það má enginn fara inn á hjúkrunarheimilin að heimsækja fólk. Það gildir þá líka þannig að þú getur ekkert verið að taka fólk út af hjúkrunarheimilinu, inn á þitt heimili, og síðan farið bara með það aftur,“ sagði Víðir í Bítinu.

„Væntanlega verður það þannig að þeir sem fara út af hjúkrunarheimilunum núna um páskana þeir fá ekkert að fara inn aftur, við verðum að verja þennan hóp,“ bætti hann við en tók þó fram að fólk meini líklegast ekkert illt með því sem það gerir heldur sé einfaldlega um að ræða hugsunarleysi. Við þurfum bara að hjálpast að við að koma þessum skilaboðum á framfæri.“

Eitt slys er einu slysi of mikið

Þá bætti hann við að allir þyrftu að vanda sig sérstaklega í öllu til að leggja ekki of mikið álag á heilbrigðiskerfið. Þrátt fyrir að enginn ætli sér að lenda í slysi geta þau alltaf gerst sem myndar mikið álag á heilbrigðisstarfsfólk. „Allt þetta fólk þarf ekki á því að halda að bæta þessu við. Eitt slys um páskana er einu slysi of mikið.“

„Við erum bara að reyna að hvetja fólk til að vera sem allra minnst á ferðinni, það er auðvitað meðan ekkert gerist þá er þetta ekki neitt en hvað ef það gerist eitthvað, þú lendir í slysi eða þú festir bílinn eða einhver þarf að koma að hjálpa þér,“ sagði Víðir en bjarga þurfti um eitt hundrað Íslendingum um helgina vegna veðurs.

Þau eru nú undir ýmislegt búið þessa helgi en vonast er til að fólk hlýði nú þeim tilmælum sem hafa verið gefin út. „Nú ætlum við bara að draga djúpt andann og hægja þjóðfélagið alveg niður þessa páskahelgina og sjáum svo bara hvar við erum stödd eftir páska,“ sagði Víðir og bætti við að þessi páskar verði líklegast þeir skrýtnustu í manna minnum.

Stöðugt að læra

Hvað samkomubannið varðar sagði Víðir að ekki liggi fyrir hver staðan verður í framtíðinni þar sem enginn hefur gengið í gegnum það sem samfélagið glímir nú við. Samkomubannið var á dögum framlengt til fjórða maí og er áætlað að því verði aflétt í áföngum. „Við erum stöðugt að læra og ég hef stundum verið að segja það að við séum að nota það sem við lærðum í gær til þess að reyna að átta okkur á hvað við eigum að gera á morgun,“ sagði hann.

„Það eina sem við vitum er að við viljum ekki sleppa þessari veiru lausri til þess að fá annan faraldur yfir okkur þegar líður inn á sumarið eða líður á haustið. Það er það sem verður áskorun fyrir sérfræðingana okkar er að reyna að átta sig á því hvað þurfi að gera og hvernig getum við slakað á þessu til þess að fara að færa lífið okkar í eðlilegt horf og hvernig sumarið verður vitum við ekki.“

Fleiri lagðir inn á gjörgæslu

Alls eru fleiri en fimmtán hundruð manns smitaðir af COVID-19 hér á landi en 559 höfðu náð bata í gær. Að sögn Víðis er það nú fyrsta talan sem hann kíkir á þegar nýjar tölur koma inn klukkan eitt á daginn. „Við erum svona að nálgast það að komast á toppinn á þessum faraldri og við erum kannski akkúrat að fara í gegnum viðkvæmasta tímann núna,“ sagði Víðir en af þeim sem eru smitaðir eru 39 á sjúkrahúsi, þar af þrettán á gjörgæslu. Sex hafa látist eftir að hafa smitast.

„Þessi veira er með mörg andlit og er að snerta okkur á mjög mismunandi hátt,“ sagði Víðir en hann sagði að von væri á fréttum um að fleiri hafi verið lagðir inn á gjörgæslu. „Við verðum bara aðeins að slaka á. Það eru fleiri að leggjast á gjörgæslu og það eru fleiri að veikjast alvarlega. Við þurfum bara að halda áfram. Þetta er ekkert búið og þetta snertir okkur öll.“