Norður-Kórea

Ekki í fyrsta sinn sem afvopnun er lofað

Norður-Kórea lofar nú að losa sig við kjarnorkuvopnin. Ríkið segist ætla að hætta að vinna að kjarnorkuáætlun sinni. Þótt horfur nú séu góðar sýnir sagan að ríkið hefur áður gert samninga um slíkt og ekki staðið við þá.

Aðalstjórnstöðin á tilraunasvæðinu í Punggye-ri. Loftmyndin er tekin með gervihnetti árið 2013. Lítil virkni hefur verið á svæðinu frá kjarnorkutilraun síðasta árs. Nordicphotos/Getty

Fundur Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, og Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, í landamærabænum Panmunjom í apríl er flestum enn í fersku minni. Fundurinn átti sér óvæntan aðdraganda en á honum skrifuðu leiðtogarnir undir yfirlýsingu þar sem meðal annars var kveðið á um að ríkin myndu vinna að kjarnorkuafvopnun á Kóreuskaga.

Nú síðast um helgina bárust þær fréttir að Norður-Kórea áformi að taka í sundur tæki sín og tól á kjarnorkuprófunarsvæði sínu í Punggye-ri. Áformar einræðisríkið að sú vinna fari fram í næstu viku. Göng verða felld saman með sprengingum og eftirlitstæki fjarlægð.

„Kjarnorkumálastofnun landsins og aðrar tengdar stofnanir undirbúa nú þetta verkefni til þess að tryggja að það sé öllum ljóst að kjarnorkutilraunum hafi verið hætt,“ sagði í frétt ríkismiðilsins KCNA.

Kjarnorkusvæði Norður-Kóreu í Yongbyon. Nordic­photos/Getty

Ljóst er að ástandið á Kóreuskaga nú er mun friðvænlegra en í fyrra, þegar Kim sagðist ætla að varpa sprengjum á bandarísku eyjuna Gvam. En þótt Norður-Kórea heiti nú kjarnorkuafvopnun er, í ljósi sögunnar, ekki hægt að fagna strax.

Óvíst er hvort útfærsla Norður-Kóreu á kjarnorkuafvopnun verði Bandaríkjamönnum þóknanleg. Líklegt er að ríkisstjórn Donalds Trump forseta fari fram á að eftirlitsaðilar fái að fylgjast með því að afvopnun verði þannig háttað að ferlið sé óafturkræft og afgerandi.

Þá er þess skemmst að minnast að Norður-Kórea hefur oftar en einu sinni og oftar en tvisvar skrifað undir samninga um að losa sig við vopn sín og hætta vinnu að kjarnorkuáætlun landsins. Við það hefur ekki enn verið staðið.

Raunveruleg geta Norður-Kóreu til að varpa þessum gereyðingarvopnum á óvini sína er óljós. Hins vegar hallast Bandaríkjamenn nú að því, samkvæmt skjölum sem lekið var í Washington Post í fyrra, að einræðisríkinu hafi tekist að smækka sprengjur sínar nóg til að hægt sé að flytja þær með langdrægum eldflaugum.

Kjarnorkumál í 60 ár

Fjöldi kjarnorkuvopna 13 til 60

Fjöldi kjarnorkutilrauna Sex

Öflugasta sprengjan
Norður-Kórea 2017 – 50 kílótonn
Tsar Bomba, Sovétríkin 1961 - 50.000 kílótonn
Little Boy, Hírósíma 1945 – 15 kílótonn

Drægi eldflauga
Hámarksdrægi norðurkóreskra eldflauga – 13.000 kílómetrar
Vegalend frá Norður-Kóreu til Íslands - 8.000 km
Frá Norður-Kóreu til Washington – 11.000 km

1956 Sovétríkin byrja að fræða norðurkóreska vísindamenn og verkfræðinga um kjarnorkumálin.

1962 Bygging kjarnorkurannsóknarmiðstöðvarinnar í Yongbyon klárast.

1980-86 Klára að byggja kjarnakljúf til að framleiða plútón.

1985 Norður-Kórea skrifar undir samning um að dreifa ekki kjarnavopnum (NPT).

1989 Bandaríkin staðfesta með gervihnöttum tilvist kjarnorkuáætlunarinnar.

1993 Alþjóðakjarnorkumálastofnunin (IAEA) krefst að- gangs að kjarnorku- úrgangsgeymslusvæðum Norður-Kóreu. Einræðisríkið neitar.

1994 Norður-Kórea lofar Bandaríkjunum að taka í sundur gamla kjarnakljúfa gegn því að fá aðstoð við að byggja tvo léttvatnskjarnakljúfa.

1998 Norður-Kórea prófar Taepodong-1 eldflaug og skýtur yfir Japan. Bandaríkin veita þróunaraðstoð gegn því að eldflaugatilraunir verði settar á ís.

2002 Bandaríkin greina frá því að NorðurKórea hafi unnið að því að koma sér upp kjarnorkuvopnum í leyni. Sú vinna brýtur gegn samningnum frá 1994.

2003 Norður-Kórea segir sig úr NPT. Í apríl lýsir Norður-Kórea því svo yfir að ríkið búi loks yfir kjarnorkuvopnum.

2005 Norður-Kórea semur um afvopnun og að allri vinnu við smíði kjarnorkuvopna verði hætt.

2006 Norður-Kórea prófar sína fyrstu kjarnorkusprengju. Sprengjan talin á bilinu 0,2 til 1 kílótonn og er því mjög lítil. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkir umfangsmiklar viðskiptaþvinganir.

2007 Norður-Kórea lofar að slökkva á aðalkjarnakljúfi sínum gegn 400 milljóna dala þróunaraðstoðarpakka. Síðar sama ár, eftir sex ríkja viðræður í Peking, skrifar Norður-Kórea enn á ný undir samning þar sem ríkið lofar að losa sig við kjarnorkuvopn sín og hætta smíði þeirra.

2008 Aðrar sex ríkja við- ræður í Peking. Viðræðurnar fjara út eftir að NorðurKórea neitar að veita eftirlitsaðilum ótakmarkaðan aðgang að tilrauna- og framleiðslusvæðum. 2009 Eftir að öryggisráðið fordæmir eldflaugatilraun heitir Norður-Kórea því að taka aldrei aftur þátt í sex ríkja viðræðum.

2009 Önnur kjarnorkusprengja prófuð.

2010 Greint frá tilvist nýrrar verksmiðju NorðurKóreu þar sem einræðisríkið auðgar úran.

2012 Bandaríkin semja við Norður-Kóreu um að allri kjarnorkustarfsemi og öllum eldflaugatilraunum verði hætt gegn því að Bandaríkin sendi matvæli til Norður-Kóreu.

2013 Varnarmálaráð Norður-Kóreu segir að kjarnorkutilraunum verði haldið áfram þrátt fyrir gerða samninga. Ráðið segir Bandaríkin helsta óvin kóresku þjóðarinnar. Þriðja kjarnorkusprengjan, sú fyrsta í valdatíð Kim Jongun, prófuð.

2015 Norður-Kórea segist geta hæft Bandaríkin með kjarnorkusprengju.

2016 Norður-Kórea lýsir því yfir að ríkið hafi í fyrsta sinn sprengt vetnissprengju. Slíkar sprengjur eru mun öflugri en hefð- bundnar kjarnorkusprengjur. Síðar sama ár sprengir Norður-Kórea tíu kílótonna kjarnorkusprengju.

2017 Norður-Kórea prófar langdræga eldflaug og segir að hún geti dregið hvert sem er á hnettinum. Sú staðhæfing er umdeild en nærri öruggt þykir að eldflaugin dragi til Bandaríkjanna.

2017 Síðar prófar NorðurKórea sína sjöttu kjarnorkusprengju. Sprengjan er átta sinnum öflugri en Híró- síma-sprengjan og líklegt þykir að um raunverulega vetnissprengju sé að ræða.

2018 Norður-Kórea tekur þátt á Vetrarólympíuleikum í Suður-Kóreu og samskipti ríkjanna batna til muna. Kim fundar með Moon Jae-in, forseta SuðurKóreu, í landamærabænum Panmunjom. Þar lofa leiðtogarnir að vinna að kjarnorkuafvopnun á Kóreuskaga.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Norður-Kórea

Hvetur Kim til að standa við skuld­bindingar um af­vopnun

Norður-Kórea

Norður-Kóreu­búar ganga til kosninga

Norður-Kórea

Kalla Japana dverga með svört hjörtu

Auglýsing

Nýjast

Lykilleiðum lokað vegna veðurs

„​Barist á ýmsum víg­stöðvum“

Porsche kynnir Cayenne Coupe

Bar mislinga til Íslands: „Mjög máttlaus og með blússandi hita“

Lexus UX 250h frumsýndur

Fullnaðar­sigur Stundarinnar: „Á þessu bara að ljúka svona?“

Auglýsing