Stuðningsmönnum sem hyggjast mæta á leik Íslands og Tyrklands verður með öllu óheimilt að mæta með bursta af hvers lags tagi þegar liðin mætast á Laugardalsvelli í kvöld. Þetta segir öryggisstjóri Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) og bætir við að einhver umræða hafi verið um slík áform undanfarna daga.

„Það er ýmislegt í heiminum sem kemur manni á óvart. Við vissum það ekki fyrr en þessi uppákoma varð að Tyrkir tækju þessu sem einhverju kynþáttaníði. Þetta á sér einhverja gamla sögu og við lítum á það sem alvarlegt mál ef það er verið að sýna okkur gestum kynþáttaníð,“ segir Víðir Reynisson í samtali við Fréttablaðið.

Óbreytt áform um gæslu á vellinum

Því verði allir burstar gerðir upptækir ákveði einhverjir vallargestir að mæta með slíka. Málið tengist vitaskuld þeirri umræðu sem spratt upp í kjölfar þess að Belgi, Corentin Siamang að nafni, veifaði uppþvottabursta framan í Emre Belözoglu, fyrirliða tyrkneska liðsins, í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á sunnudag og þóttist ætla að taka viðtal við hann.

„Við höfum verið mjög stíf með þau tilmæli að fólk skilji burstann eftir heima en taki góða skapið með sér og hvetji liðið,“ segir Víðir. „Þótt einhverjum finnist þetta fyndið þá finnst okkar gestum það ekki og við leggjum áherslu á að KSÍ fordæmir allt kynþáttaníð.“

Víðir Reynisson á von á frábæru kvöldi í Laugardalnum.
Fréttablaðið/Eyþór

En kemur gæslan til með að verða efld vegna þróunar undanfarinna daga?

„Við erum bara með mjög öfluga gæslu á vellinum í kvöld og hún var sett upp fyrir þennan leik eins og við mátum það á sínum tíma. Við höfum haldið okkur við það plan og teljum að hún sé vel ásættanleg. Þessir haturs- og hótanapóstar eru frá fólki sem er ekki einu sinni að koma á leikinn,“ segir hann.

Aðspurður segir hann KSÍ ekki hafa kannað það hvort þeir sem sent hafa Íslendingum grófa hatur- eða hótunarpósta vegna málsins séu á leið á leikinn. Ofangreind fullyrðing komi hins vegar frá tyrkneska knattspyrnusambandinu.

Mörg landslið þurft að spila fyrir luktum dyrum

„Þeir bera ábyrgð á sínum stuðningsmönnum. Þeir hafa upplýst okkur um það að þetta fólk sem er að koma í kvöld sé prúðasta fólk og mætt til að styðja sitt lið.“

Það sé ljóst að afleiðingarnar kunni að vera miklar fari svo að íslenskir stuðningsmenn verði uppvísir að kynþáttaníði. Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, hafi áður tekið fast á slíku.

„Þónokkuð mörg landslið hafa þurft að spila heimaleiki sína fyrir luktum dyrum og við höfum til að mynda spilað í Úkraínu og Króatíu á lokuðum völlum útaf svona málum,“ segir Víðir og vísar þar í nýleg dæmi.

Að öðru leyti sé frábært kvöld framundan á Laugardalsvelli. Uppselt er á leikinn og Ísland í kjörstöðu til að tryggja sér góða stöðu í undanriðlinum með sigri.