Ekki var hugað að kynjahlutfalli við kosningu fulltrúa þriggja nefnda á fyrsta fundi bæjarstjórnar Kópavogs í síðustu viku. Auk þess voru eingöngu karlar kosnir í hverfakjörstjórn og eingöngu konur í öldungaráð.
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi, gagnrýnir þetta og segir Sjálfstæðisflokk og Framsókn ekki hugað að því að skipa fólk af ólíku kyni á listum sínum, sem valdi því að nokkrar nefndir séu á skjön við sveitarstjórnarlög.
„Á fundinum vorum við í minnihlutanum fyrst að heyra nöfnin sem meirihlutinn var að leggja fram. Við gerðum strax athugasemdir um að þau væru ekki að sinna kynjakvótanum eins og lög gera ráð fyrir,“ segir Sigurbjörg, og bætir við að þeim athugasemdum hafi verið mætt með fálæti.
„Við fengum þau svör að þau hafi ekki áttað sig á þessu. En samt var ákveðið að kjósa í nefndir og ráð,“ segir Sigurbjörg.
Samkvæmt ákvæði sveitarstjórnarlaga, sem tekur á framlagningu lista við hlutfallskosningu, á að minnsta kosti einn af hvoru kyni að vera á lista ef velja á tvo eða þrjá fulltrúa í nefnd. Ef velja á fjóra eða fimm fulltrúa eiga að minnsta kosti tveir af hvoru kyni að vera á lista, og ef velja á sex til átta í nefnd skulu að minnsta kosti þrír af hvoru kyni vera á lista.
Augljóst er að þrjár nefndir Kópavogsbæjar uppfylla ekki þetta ákvæði sveitastjórnarlaga. Í hafnarstjórn Kópavogsbæjar sitja fimm fulltrúar, þar af fjórir karlar og ein kona. Þá sitja fjórar konur og einn karl í jafnréttis- og mannréttindaráði og fjórir karlar og ein kona í umhverfis- og samgöngunefnd. Þrír karlar sitja í hverfakjörstjórn og þrjár konur í öldungaráði.
Sigurbjörg segist vona að þessu verði snarlega breytt og kosið verði aftur þegar nefndirnar taki til starfa eftir sumarfrí, en flestar þeirra hafa enn ekki haldið sinn fyrsta fund.
Nýlega kom upp svipuð staða í Reykjavík, þar sem Guðrún Erla Geirsdóttir, einn stofnenda Kvennaframboðsins, vakti athygli á því að aðeins karlmenn skipuðu Menningar- íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkurborgar. Skúli Helgason, formaður ráðsins, sagðist hafa gert athugasemd við þetta og til stæði að taka þetta upp í nefndinni.