Ekki var hugað að kynja­hlut­falli við kosningu full­trúa þriggja nefnda á fyrsta fundi bæjar­stjórnar Kópa­vogs í síðustu viku. Auk þess voru ein­göngu karlar kosnir í hverfa­kjör­stjórn og ein­göngu konur í öldunga­ráð.

Sigur­björg Erla Egils­dóttir, bæjar­full­trúi Pírata í Kópa­vogi, gagn­rýnir þetta og segir Sjálf­stæðis­flokk og Fram­sókn ekki hugað að því að skipa fólk af ó­líku kyni á listum sínum, sem valdi því að nokkrar nefndir séu á skjön við sveitar­stjórnar­lög.

„Á fundinum vorum við í minni­hlutanum fyrst að heyra nöfnin sem meiri­hlutinn var að leggja fram. Við gerðum strax at­huga­semdir um að þau væru ekki að sinna kynja­kvótanum eins og lög gera ráð fyrir,“ segir Sigur­björg, og bætir við að þeim at­huga­semdum hafi verið mætt með fá­læti.

„Við fengum þau svör að þau hafi ekki áttað sig á þessu. En samt var á­kveðið að kjósa í nefndir og ráð,“ segir Sigur­björg.

Sam­kvæmt á­kvæði sveitar­stjórnar­laga, sem tekur á fram­lagningu lista við hlut­falls­kosningu, á að minnsta kosti einn af hvoru kyni að vera á lista ef velja á tvo eða þrjá full­trúa í nefnd. Ef velja á fjóra eða fimm full­trúa eiga að minnsta kosti tveir af hvoru kyni að vera á lista, og ef velja á sex til átta í nefnd skulu að minnsta kosti þrír af hvoru kyni vera á lista.

Augljóst er að þrjár nefndir Kópavogsbæjar uppfylla ekki þetta ákvæði sveitastjórnarlaga. Í hafnar­stjórn Kópa­vogs­bæjar sitja fimm full­trúar, þar af fjórir karlar og ein kona. Þá sitja fjórar konur og einn karl í jafn­réttis- og mann­réttinda­ráði og fjórir karlar og ein kona í um­hverfis- og sam­göngu­nefnd. Þrír karlar sitja í hverfa­kjör­stjórn og þrjár konur í öldunga­ráði.

Sigur­björg segist vona að þessu verði snarlega breytt og kosið verði aftur þegar nefndirnar taki til starfa eftir sumar­frí, en flestar þeirra hafa enn ekki haldið sinn fyrsta fund.

Ný­lega kom upp svipuð staða í Reykja­vík, þar sem Guð­rún Erla Geirs­dóttir, einn stofn­enda Kvenna­fram­boðsins, vakti at­hygli á því að að­eins karl­menn skipuðu Menningar- í­þrótta- og tóm­stunda­ráð Reykja­víkur­borgar. Skúli Helga­son, for­maður ráðsins, sagðist hafa gert at­huga­semd við þetta og til stæði að taka þetta upp í nefndinni.