Staða Páls Vilhjálmssonar sem kennara við Fjölbrautaskólann í Garðabæ verður óbreytt.

Þetta kemur fram í tölvupósti sem Kristinn Þorsteinsson skólameistari sendi nemendum og starfsfólki nú í morgun.

Bloggskrif Páls um vöktu mikla athygli fyrr í þessum mánuði. Páll ritaði blogg­pistil eftir að Helgi Seljan frétta­maður opnaði sig í Vikunni hjá Gísla Marteini og sagðist hafa þurft að leita sér geð­rænnar að­stoðar eftir um­sátrið sem hann varð fyrir í kjöl­far af­hjúpunar Kveiks um Sam­herja­skjölin.

Meðal þess sem Páll skrifaði var: „Sá sem leggst inn á geð­deild er kominn í slíkar ó­göngur að að­eins duga stór­tæk inn­grip læknis­vísinda til að færa geð­heilsuna í samt lag.“ Þá skrifar Páll að það „sé í meira lagi undar­legt að geð­veikur maður fari með víð­tækt dag­skrár­vald á ríkis­reknum fjöl­miðli, RÚV“.

Tjáningarfrelsi hornsteinn lýðræðislegrar umræðu

Í bréfi Kristins segir að honum hafi borist mikill fjöldi tölvupósta og símtala vegna þessa skrifa, meirihluti er gagnrýninn á skrif Páls en einnig hafa borist skeyti þar sem áhersla er lögð á rétt Páls til að tjá sig í ræðu og riti.

„Nú er tjáningarfrelsi mjög mikilvægt og algjör hornsteinn lýðræðislegrar umræðu að þegnar landsins geti tjáð sig án þess að þurfa að hafa áhyggjur af atvinnu sinni í kjölfarið. Þetta er þó ekki án takmarkanna. Sum ummæli er þess eðlis að þau leiða til dómsmála og jafnvel atvinnumissis. Engu að síður er mér ekki kunnugt um að opinber starfsmaður hafi þurft að láta af starfi vegna ummæla sinna um samfélagsmál og það staðist fyrir dómi,“ segir í bréfinu.

„Nú er ég enginn lögfræðingur en hef leitað mér aðstoðar á því sviði. Eftir það samtal er það niðurstaða mín að hrófla ekki við stöðu Páls hér við skólann vegna þessara skrifa um Helga Seljan. Sú niðurstaða byggir ekki síst á því að þessi ummæli eiga sér stað úti í bæ en ekki inni í skólastofunni.“

Alfarið ósammála skrifum Páls

Kristinn segir að lífið snúist ekki bara um hvað er lögfræðilega rétt og rangt. „Ég get ekki látið þess skrif framhjá mér fara án þess að setja fram athugasemdir. Ég skil skrif Páls þannig að störf Helga Seljan í fjölmiðlum séu ómarktæk vegna þess að hann glími við geðsjúkdóm. Af því má væntanlega draga þá ályktun að fólk sem glími við slíka sjúkdóma hafi lítið erindi í opinbera umræðu. Þessu er ég alfarið ósammála og tel þessi ummæli afar óheppileg fyrir framhaldsskólakennara og hef gert Páli grein fyrir þessari afstöðu minni,“ segir hann.

„Nú hefur Páll kennt hér á annan áratug og sinnt störfum sínum af kostgæfni og veitt nemendum sem eiga í erfiðleikum svigrúm og sanngirni. Því er ég undrandi og afar ósáttur við að hann sendi þeim sem glíma við geðsjúkdóma þessi skilaboð.“

Hann segir að í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ sé fjölbreyttur hópur nemenda. „Þannig viljum við hafa það. Okkur ber að sýna nemendum okkar virðingu og styðja á leiðinni til frekari þroska. Það er og hefur verið stefna skólans og annað verður ekki liðið.“