Birna Dröfn Jónasdóttir
Laugardagur 4. mars 2023
12.00 GMT

Ég var náttúrlega bara pjakkur þegar ég byrjaði,“ segir Guðmundur Stephensen, stórmeistari í borðtennis. Hann keppir á Íslandsmeistaramótinu um helgina eftir tíu ára pásu frá borðtennis.

„Ég fór ekki að æfa strax en ég byrjaði að spila heima liggur við um leið og ég gat staðið í lappirnar. Við vorum með borðtennisborð heima hjá mömmu og pabba og ég var bara svona þriggja ára þegar ég byrjaði að leika mér að spila, en ég var sex ára þegar ég byrjaði að mæta á æfingar,“ segir Guðmundur.

„Það var ekki algengt að fólk væri með borðtennisborð heima hjá sér en heima hjá okkur var salur þar sem var borðtennis og billjard og svona, mjög skemmtilegt og það var mikið spilað. Borðtennis var alltaf mikið í fjölskyldunni.“

Guðmundur segir borðtennis algjört vetrarsport, engar æfingar hafi verið á sumrin hér á árum áður og að fljótt hafi spurst út að heima hjá honum væri borð sem hægt væri að æfa sig á. „Þarna var ég bara lítill, varla farinn að æfa og kallarnir í Víkingi, þessir bestu, vissu að það væri borð á Laugarásveginum hjá pabba og þetta varð hálfgerð félagsmiðstöð,“ segir Guðmundur sem fylgdist vel með þeim æfa sig.

„Þarna var ég ekki farinn að spila við þá en það gerðist reglulega að ég sofnaði undir borðinu. Lagðist bara þvert undir og var alveg kyrr, sofnaði svo við skoppið í kúlunni og fannst það svo notalegt,“ segir hann.

Þegar Guðmundur var aðeins átta ára gamall sigraði hann Íslandsmeistara kvenna og unglingameistara Íslands. Sama ár komst hann í meistaraflokk og ellefu ára varð hann Íslandsmeistari í fyrsta sinn. Hann sigraði einliðaleik 20 ár í röð.
Fréttablaðið/Valli

Ungur Íslandsmeistari

Fljótlega eftir að Guðmundur byrjaði að æfa borðtennis kom í ljós að þar hefði hann mikla hæfileika. Þegar hann var aðeins átta ára gamall sigraði hann Íslandsmeistara kvenna og unglingameistara Íslands. Sama ár komst hann í meistaraflokk. Ellefu ára varð hann Íslandsmeistari í fyrsta sinn.

„Ég man ekki mikið frá því að ég var lítill. Ég held að pabbi hafi áttað sig á því að ég væri góður í þessu og ég spáði ekkert í því sjálfur, maður er ekkert að spá í því sjálfur hvað maður er góður. Ég var bara í borðtennis á veturna og fótbolta á sumrin og elskaði að vera í íþróttum,“ segir Guðmundur.

„Ég er svo kannski svona tíu ára þegar ég er farinn að geta unnið þessa kalla, þessa bestu. Ég keppti ekki á Íslandsmeistaramótinu þegar ég var tíu ára en ég held að ég hefði alveg getað það og ég held að ég hefði alveg átt séns en ég vann svo ári seinna, 1994, þá var ég ellefu ára,“ segir Guðmundur.

Þá ert þú ellefu ára að keppa við fullorðna menn og vinnur?

„Já, þeir voru bara allir mættir og ég vann,“ segir Guðmundur og hlær.


Ég er svo kannski svona tíu ára þegar ég er farinn að geta unnið þessa kalla, þessa bestu.


Á þessum tíma hóf Guðmundur að spila í dönsku deildinni. Hann var aðeins tólf ára þegar hann fór að ferðast einn til Danmerkur og keppa. „Ég fór næstum hverja einustu helgi og ég fór alltaf einn. Maður var bara símalaus og kortalaus og stundum þekkti ég engan, ef ég var kannski nýbúinn að skipta um lið þá þekkti ég ekki einu sinni þjálfarann. Pabbi lét mig fá danskan pening og vonaðist til þess að ég kæmi heim á sunnudeginum,“ útskýrir hann.

Guðmundur segist aldrei hafa verið hræddur eða liðið illa á ferðalögunum þó að hann hafi verið bæði einn og ungur. „Mér fannst þetta geggjað og það voru aldrei nein vandamál. Ég bjargaði mér á ensku og ég er týpan sem get alltaf sofið á ferðalögum, bæði í bíl og flugvél. Ég bara flaug út, var sóttur af einhverjum þjálfara, fór og keppti og flaug heim. Ég gat hringt í mömmu og pabba í tíkallasíma og ég gat meira að segja hringt þannig að þau borguðu símtalið,“ segir hann. „Stundum hugsa ég til baka og er bara: hvað voru þau að pæla? En þarna var þetta bara allt öðruvísi.“

Guðmundur fékk greitt fyrir keppnirnar en hann segir upphæðirnar ekki hafa verið háar en þær nægt tólf ára barni. Hann þurfti ekki oft að fá frí í skólanum þrátt fyrir að hann væri á barmi atvinnumennsku. „Ég gat alveg gert bæði en skólinn hefur aldrei verið það sem ég hef lagt mesta áherslu á. Nám var samt aldrei vandamál en ég var mjög góður í því að tala kennarana til og halda þeim góðum, maður þarf líka að vera góður í því í íþróttum, halda til dæmis þjálfaranum góðum,“ segir hann.

Hér fagnaði Guðmundur Íslandsmeistaratitlinum árið 1995 aðeins 13 ára, hann vann fyrst titilinn 11 ára.
Fréttablaðið/ÞÖK

„Ég spilaði í Danmörku alveg út menntaskólann. Kláraði MS og gat ekki beðið eftir að komast út. Eftir á að hyggja hefði ég átt að fara í menntaskóla í Danmörku en eins og ég sagði áðan var þetta allt öðruvísi og flóknara. Heimurinn var ekki svona lítill. Það var flóknara að flytja á milli landa,“ segir Guðmundur sem fór strax að loknum menntaskóla til Noregs og þaðan til Svíþjóðar.

Fannst þér þú fara á mis við unglingsárin þar sem þú varst mikið erlendis að keppa?

„Nei alls ekki. Ég átti góðan vinahóp, við vorum allir mikið í íþróttum en það var ekki það eina sem við gerðum. Ég var alveg á fullu í íþróttum og að keppa en ég fór ekki á mis við það að vera unglingur,“ segir Guðmundur.

„Á þessum tíma var algengt að fólk byrjað að drekka á unglingsárunum og við gerðum það líka. Það var ekkert rugl á okkur og við vorum ekki í dópi eða eitthvað. Hittumst bara á bak við Skalla og drukkum, vorum svo farnir heim fyrir miðnætti. Svona var þetta bara, sama hvað okkur finnst um það núna.“


Á þessum tíma var algengt að fólk byrjað að drekka á unglingsárunum og við gerðum það líka.


Guðmundur segist þó hafa upplifað að finnast hann vera að missa af ákveðnum viðburðum um helgar þegar þegar hann var barn og unglingur. „Ég var alltaf í útlöndum um verslunarmannahelgina og missti alltaf af Þjóðhátíð en ég var í Danmörku á sumrin að æfa með danska landsliðinu, ég fékk alltaf eitthvað skemmtilegt í staðinn fyrir það sem ég var að missa af svo mér fannst það ekki beint leiðinlegt.“

Atvinnumaður

Í Svíþjóð fékk Guðmundur sinn fyrsta alvöru samning að hans eigin mati. Þá var hann orðinn atvinnumaður. „Ég hafði verið bestur alveg frá því að ég var ellefu ára og það er engin ögrun í því að spila alltaf við einhvern sem er lélegri en þú. Ég stóð í stað í mörg ár og mig vantaði áskorun,“ segir hann.

„Í Svíþjóð fékk ég áskorun og ég var ekki bestur. Ég spilaði með nokkrum liðum þarna til að byrja með en svo fékk ég samning við Malmö FF sem er stórlið í Evrópu, alveg risalið. Þarna er ég 23 ára og þá er ég loksins orðinn atvinnumaður. Fram að þessu hafði ég fengið smá pening og svona en þarna var þetta orðin vinnan mín og allt í einu var allt að ganga upp,“ segir Guðmundur.

Guðmundur keppir um Íslandsmeistaratitilinn um helgina og stefnir á sigur þrátt fyrir langa pásu.
Fréttablaðið/Valli

Honum líkaði vel í Svíþjóð þar sem hann spilaði hundruð leikja og vann fjölda titla. Árið 2006 eignaðist Guðmundur sitt fyrsta barn ásamt eiginkonu sinni Nönnu Kolbrúnu Óskarsdóttur, en þau hafa verið saman frá því þau voru 18 ára.

„Við kynntumst þegar ég var í MS og hún í MH. Ég tróð mér með í partí til hennar með vini mínum, hann ætlaði að næla sér í hana en ég gerði það,“ segir Guðmundur.

Er hann búinn að fyrirgefa þér?

„Já bara rétt núna,“ segir hann kaldhæðinn og skellihlær.

„Hún er búin að fara með mér i gegnum þetta allt. En hún hefur engan áhuga á íþróttum sem er allt í lagi af því að þetta hefur aldrei heltekið okkur. Hún flutti með mér út og það var æðislegt að hafa hana með mér, svo þægilegt. Ég var aldrei einmana en ég hefði pottþétt orðið það ef hún hefði ekki verið með mér og þetta hefði verið allt öðruvísi.“

Guðmundur var aðeins 24 ára þegar Viktoría dóttir hans fæddist, þau Nanna Kolbrún eiga nú saman fjögur börn. „Okkur fannst við ekkert ung þegar hún fæddist en fólkinu í kringum okkur úti fannst við bara eitthvað rugluð. Fólk í Skandinavíu er ekki að eignast börn fyrr en það er kannski um þrítugt,“ segir hann.

Hér er Guðmundur 19 ára gamall, stuttu eftir að hann kynntist Nönnu Kolbrúnu.
Fréttablaðið/Einar

Fjölskyldan bjó Svíþjóð þegar Viktoría var að alast upp, síðar spilaði Guðmundur tvö ár í Frakklandi og svo í Hollandi. Árið 2013, þegar hann var þrítugur, ákvað Guðmundur að hætta að spila borðtennis. Þá hafði hann unnið um 200 titla hér á Íslandi og víðar í Evrópu.

Það er frekar ungt að hætta þrítugur í borðtennis, flestir eru á toppnum 35 ára, af hverju hættir þú?

„Það var eiginlega engin ástæða fyrir því. Eftir á að hyggja er þetta fáránlegur tími til að hætta en mig langaði bara að kúpla mig út úr þessu,“ segir Guðmundur.

„Þarna vorum við flutt heim og ég var farinn að vinna í fjölskyldufyrirtæki konunnar minnar og var að spila í Hollandi á sama tíma, bjó hér og fór á milli. Mig langaði bara allt í einu að vinna á dagvinnutíma, ég var búinn að keppa allar helgar síðan ég var lítill, æfa á morgnana og kvöldin og þurfa alltaf að þóknast öllum, það var bara ekkert svo gaman lengur.“


Ég var búinn að keppa allar helgar síðan ég var lítill, æfa á morgnana og kvöldin og þurfa alltaf að þóknast öllum, það var bara ekkert svo gaman lengur.


Guðmundur segir árin í Frakklandi hafa auðveldað honum að taka ákvörðunina um að hætta. „Þegar ég var í Svíþjóð þá var alltaf gaman og það var það líka í Hollandi. En í Frakklandi voru allir í fýlu. Mér gekk vel þar og vann flesta leikina en liðinu gekk ekki vel, þeir töpuðu og töpuðu og voru alltaf í fýlu yfir því og það var leiðinlegt tímabil,“ segir Guðmundur sem í Frakklandi vann 21 af 27 leikjum í deildarkeppninni og tapaði sex.

„Þessi stemning þarna í Frakkland varð bara til þess að ég nennti þessu ekki,“ segir hann.

Ekki tvítugur lengur

Frá því Guðmundur hætti að spila borðtennis fyrir áratug síðan hefur hann ekkert snert spaðann þar til í desember síðast liðnum. Nú stefnir hann á enn einn Íslandsmeistaratitillinn um helgina.

„Ég er bara búinn að sitja í tíu ár og hef eiginlega ekkert hreyft mig. Ég hélt að þetta yrði ekkert mál en það hefur ekki verið alveg svoleiðis. Ég er ekki tvítugur lengur og þó að hausinn sé alveg með allt í standi þá nær líkaminn ekki að halda í við hann,“ segir Guðmundur.

„En þetta er fljótt að koma, fyrir mánuði síðan gat ég ekki staðið í lappirnar. Ég fékk einhverja klemmu í bakið og var alveg „out“ í þrjár vikur en núna bara ét ég pillur og nota hitakrem, þá get ég æft,“ segir hann og glottir.

Er þá ferli þínum sem atvinnumanni lokið þrátt fyrir að þú ætlir að keppa á þessu móti?

„Já hann er alveg búinn. Ég er með stóra fjölskyldu svo ég er ekki að fara aftur út í þetta. Ég hélt ég hefði ekki saknað þess neitt að spila en núna finn ég að ég hef saknað þess og mér finnst þetta svakalega gaman,“ segir hann.

„En það er líka búið að vera svakalega gaman að ala upp börnin og gera allt annað en að spila borðtennis,“ segir Guðmundur en líkt og fram hefur komið eiga þau Nanna Kolbrún fjögur börn. „Við eignuðumst okkar elstu þegar við vorum í Svíþjóð og svo átta árum seinna eignuðumst við tvíbura og svo kom eitt í viðbót. Á tímabili vorum við með þrjú börn undir tveggja ára,“ segir hann.

Guðmundur, Nanna Kolbrún og börnin þeirra fjögur. Nú eru í vinnslu heimildaþættir um feril Guðmundar, þeir verða sýndir næsta vetur
Mynd/Aðsend

„Þegar við eignuðumst elstu þá var ég bara alltaf að vinna og tók ekki mikinn þátt eða mikla ábyrgð en svo þegar þú eignast tvíbura þá þurfa bara að vera tveir foreldrar. Ég var bara alltaf með eitt barn og hún annað. Svo hjálpaði elsta okkur mjög mikið,“ segir Guðmundur.

„Svo þegar það kom eitt barn í viðbót þá var ég rosa mikið með tvíburana og mamman með litlu, það var geggjað, ég fékk bara að vera í 100 prósent uppeldi á börnunum mínum,“ segir hann.

„Maður á ekki að hugsa í svona hefðbundnum kynhlutverkum en þarna var ég með tvíburana eins og mömmur eru vanalega, ég var „all in“ og tók fulla ábyrgð. Auðvitað gerðum við þetta saman en ég tók beinan þátt í þessu öllu og ég mæli með því fyrir alla og hvet aðra karla til að gera það, það var rosalega gaman og ég myndaði allt aðra tengingu við börnin.“


Maður á ekki að hugsa í svona hefðbundnum kynhlutverkum en þarna var ég með tvíburana eins og mömmur eru vanalega, ég var „all in“ og tók fulla ábyrgð.


Spurður að því hvort að þau hjónin stefni að því að stækka barnahópinn frekar segir Guðmundur svarið vera skýrt nei. „Nei, það er búið að skella í lás á það, þetta er alveg nóg. Nú er lífið að róast, þau eru orðin 17, átta og fimm og ég hef tíma til að æfa aftur.“

Og ætlar þú að vinna mótið um helgina?

„Já það kemur ekkert annað til greina,“ segir Guðmundur. „Konan mín hefur spurt mig hvað ég ætla að gera ef ég tapa en ég hugsa bara aldrei um það að ég geti tapað. Ég hugsa bara að ég sé að fara að vinna,“ segir hann.

„Ég hef aldrei tapað á Íslandsmeistaramóti, auðvitað getur það gerst en ég er ekki hræddur við það. Ef þú ert hræddur við að tapa þá bara tapar þú. Þú þarft að hafa fókusinn á því að vinna en ekki tapa.“

Athugasemdir