Lögmaður hefur stefnt einstaklingi sem kærði hann til úrskurðarnefndar. Hætt er við að áminningin falli úr gildi þar sem kærandinn kærir sig ekki um að verja úrskurðinn.

Þörf er á lagabreytingum til að koma í veg fyrir að eftirlit með störfum lögmanna sé ekki í höndum einstaklinga, að mati lögmanna. Ef áminningu á hendur lögmanni er skotið til dómstóla er það hlutverk kærenda að verja áminninguna og standa straum af kostnaði.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur lögmaður stefnt einstaklingi vegna kæru sem leiddi til áminningar. Lögmaðurinn var áminntur í tengslum við innheimtustarfsemi sem á að vera undir eftirliti Lögmannafélags Íslands, LMFÍ. Kærandinn sem leitaði til úrskurðarnefndarinnar hefur hvorki áhuga né fjárhagslega burði til að standa í málaferlum við lögmanninn, því er hætta á að áminningin verði látin niður falla.

Ingimar Ingason, framkvæmdastjóri LMFÍ, segir að það komi fyrir öðru hvoru að lögmenn sem uni ekki niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar leiti til dómstóla.

LMFÍ er ekki aðili málsins og getur því ekki tekið til varna. Lögum um eftirlit með innheimtustarfsemi lögmanna var breytt árið 2018. Þá óskaði LMFÍ eftir því að lögmenn sem reki innheimtu þurfi að tilkynna það en ekki var orðið við því.

Ingimar segir að félagið hafi kallað eftir breytingum á gildandi lagaumhverfi vegna skorts á skýrari valdheimildum og viðurlögum, sambærilegum þeim sem Fjármálaeftirlitið hefur samkvæmt ákvæðum innheimtulaga.