Kínversk yfirvöld hafa komið í veg fyrir að fulltrúar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) komist inn í landið til að rannsaka upphaf kórónuveirufaraldursins. Segja kínversk stjórnvöld að ekki sé enn búið að afgreiða beiðnir þeirra um vegabréfsáritun.

Guardian greinir frá þessu í kvöld.

Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO, hefur lýst vonbrigðum sínum vegna málsins og bendir hann á að tveir úr hópnum hafi þegar verið lagðir af stað til Kína á meðan aðrir þurftu að fresta ferðalagi sínu á síðustu stundu. Tedros segist hafa verið í samskiptum við fulltrúa kínverskra yfirvalda og lagt ríka áherslu á mikilvægi þess að rannsóknin fari fram. Vonast hann til þess að málið leysist fljótt og vel.

Í frétt Guardian kemur fram að WHO hafi reynt síðan í sumar að koma hópi vísindamanna til kínversku borgarinnar Wuhan þar sem talið er að fyrstu tilfelli COVID-19 hafi komið fram. Telur stofnunin að mjög mikilvægt sé að rannsaka í þaula hvernig veiran barst úr dýrum í menn, en til þess þurfi vísindamenn að fara á vettvang.

Ilona Kickbusch, framkvæmdastjóri Graduate-heilbrigðisstofnunarinnar í Genf, segir að líklega bíði erfitt verkefni þeirra vísindamanna sem hyggjast rannsaka upphaf faraldursins vegna þess hversu langur tími er liðinn frá því hann fór af stað.

Segir hún að rígur á milli þjóða hafi bitnað á nauðsynlegri samstöðu til að vinna bug á faraldrinum. Áður hafi samstaða skipt sköpum, til dæmis þegar bólusóttinni var útrýmt þegar kalda stríðið stóð sem hæst og þegar SARS-faraldurinn kom upp í Kína á árunum 2002 til 2003. Nú sé þessi samstaða á bak og burt.