„Við vorum mjög spennt að heyra af nýjustu aðgerðum stjórnvalda enda með um 400 manns í skötu á Þorláksmessu á hverju ári. Þegar ljóst var í hvað stefndi ákváðum við að byrja fyrr í mánuðinum og við erum að hringja í fólk og bjóða því að koma fyrr. Á sama tíma gætum við þess að passa upp á sóttvarnir,“ segir Stefán Úlfarsson, matreiðslumeistari á Þremur frökkum, aðspurður hvernig skötuveislunni verði háttað hjá þeim þetta árið.

Hann er því með skötu á boðstólum alla daga um þessar mundir.

„Það sýna þessu allir mikinn skilning og margir í áhættuhópum ætla að sleppa skötunni þetta árið og koma aftur á næsta ári. Aðrir hafa lýst yfir ánægju með að geta komið bara fyrr þegar það er ekki jafn mikið að gera. Fyrstu gestirnir komu fyrr í vikunni og það er von á fleirum á næstu dögum.“

Stefán á ekki von á því að margir panti að fá skötu senda heim.

„Það er ekki algengt að skatan sé send heim til fólks. Fólk er yfirleitt að leitast eftir því að fá ekki lyktina heim til sín,“ segir Stefán hlæjandi og bætir við:

„Það er erfitt að útrétta það enda viðkvæmur matur í takeaway, þetta er ekki eins og pitsa. Ef einhver vill koma og sækja þá getum við græjað það, við erum búin að finna lausn en ég á ekki von á því að margir leitist eftir því.“

Stefán hefur því nægan tíma til að pakka inn jólagjöfunum á Þorláksmessu þetta árið. „Hún verður bara nokkuð afslöppuð Þorláksmessan hjá okkur,“ segir hann léttur að lokum.