Ekki hefur dregið úr komum í krabbameinsskimun hjá Krabbameinsfélaginu vegna kórónaveirufaraldursins, ólíkt því sem búist var við. „Í vor fundum við fyrir minni mætingu áður en ákveðið var að skimun yrði hætt tímabundið vegna COVID-19,“ segir Sigríður Sólan Guðlaugsdóttir, kynningarstjóri Krabbameinsfélagsins.

Komum kvenna í skimun fjölgaði mjög á milli áranna 2018 og 2019. Komum í brjóstaskimun hjá konum á aldrinum 40-69 fjölgaði um 24 prósent, úr 16.540 í 20.580. Komum í leghálsskimun hjá konum á aldrinum 23-65 ára fjölgaði um 15 prósent milli ára, úr rúmum nítján þúsund komum í rúmar 22 þúsund.

Þá segist Sigríður telja líklegt að ef ekki væri fyrir áhrif faraldursins á starfsemi Krabbameinsfélagsins mætti sjá svipaða aukningu og síðustu tvö ár fyrir árið 2020.

„Ef frá er talið tímabundið hlé á skimunum vegna COVID-faraldursins síðastliðið vor sést að fjöldi koma í skimun er áþekkur fjöldanum árið 2019 svo árangurinn er varanlegur. Mjög aukin aðsókn var í skimanir þegar Leitarstöð var opnuð aftur eftir lokun vegna COVID, svo það náðist að vinna upp hluta þeirra koma sem höfðu fallið niður,“ segir Sigríður.

Áhrif faraldursins segir hún helst vera vegna sóttvarna innan Leitarstöðvarinnar þar sem passa þurfi bæði starfsfólk og viðskiptavini, „og endurskipuleggja starfsemina ef einhver þarf að fara í sóttkví“.

Krabbameinsfélagið hefur verið til umræðu undanfarið vegna mistaka við greiningu sýna úr leghálsskimunum. Sigríður segir að þrátt fyrir fréttir um atvikið hafi ekki dregið úr komu kvenna í skimun hjá félaginu. Nokkurt álag hafi þó verið vegna fyrirspurna í síma og tölvupósti.

Hún segir aukna þátttöku kvenna í skimun afar ánægjulega og leggur áherslu á mikilvægi þess að konur nýti sér boð í skimun og dragi það ekki að leita til lækna þrátt fyrir faraldurinn, hafi þær einkenni sem geti bent til krabbameins. „Reynslan sýnir að umræða um skimanir eykur komur í skimun enda hafa konur lýst því í þjónustukönnun Leitarstöðvar að helsta ástæðan fyrir því að þær mæta ekki í skimun sé framtaksleysi, svo áminningar hafa áhrif.“