Ekki er flaggað í hálfa stöng við Stjórnarráðið vegna andláts Elísabetar Bretlandsdrottningar.

„Við höfum haft mjög skýra hefð í þeim efnum. Það er ekki flaggað þegar erlendir þjóðhöfðingjar deyja,“ segir Katrín Jakobsdóttir í samtali við Fréttablaðið.

„Það hefur ekki orðið breyting á því þó vinsæll og virtur þjóðhöfðingi hafi dáið í gær.“

Katrín segir að aðeins sé flaggað í hálfa stöng þegar innlendir þjóðhöfðingjar deyja en málið var rætt á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Elísabet Bretlandsdrottning lést í gær, 96 ára að aldri.
Fréttablaðið/Getty
Flaggað í hálfa stöng í Balmoral kastala, þar sem Elísabet Bretadrottning lést.
Fréttablaðið/Getty images

Fánar hafa verið dregnir í hálfa stöng víða um allan heim eftir að Elísabet Bretlandsdrottning lést í Balmoral kastala í Skotlandi.

Karl Bretlandskonungur mun ávarpa bresku þjóðina í kvöld á á laugardag verður hann formlega krýndur konungur í St. James höll í Westminster.

Stjórnarráðið í dag, 9. september.
Fréttablaðið/Ingunn Lára
Fánar dregnir í hálfa stöng fyrir utan höfuðstöðvar NATO í Brussel.
Fréttablaðið/Getty images
Flaggað í hálfa stöng fyrir hjá Sameinuðu þjóðunum.
Fréttablaðið/Getty images