Söngkonan og laganeminn Iva Marín Adrichem segist ekki vilja tjá sig um efnislegt innihald umsagnar Samtakanna 22 um frumvarp til laga um bælingarmeðferð sem birt var í október síðastliðnum og hún ritaði nafn sitt undir. Hún segir þar hvorki að finna andúð né hatur og segist hafa skrifað undir þá umsögn sem einstaklingur en ekki sem meðlimur hóps eða samtaka.
Tilefnið eru fréttir sem bárust af því í gær að Iva Marín hefði verið klippt út úr kynningarmyndbandi um aðgengi á vegum Ferðamálastofu, Sjálfsbjargar landssambands og Öryrkjabandalags Íslands, að þeirra sögn á grundvelli skoðana hennar á trans fólki.
Í kjölfarið fékk Fréttablaðið ábendingar um að nafn Ivu væri að finna undir umdeildri umsögn Samtakanna 22 um svokallað bælingarfrumvarp en markmið frumvarpsins er að gera refsivert að beita nauðung, blekkingum eða hótunum til að fá einstakling til að undirgangast meðferð í þeim tilgangi að bæla eða breyta kynhneigð, kynvitund eða kyntjáningu hans.
Í umsögn Samtakanna 22 til fastanefndar Alþingis er varað við því að það geti leitt til þess að börn sem myndu annars vaxa úr grasi sem hommar eða lesbíur sæti óafturkræfri kynleiðréttingu fyrir sjálfræðisaldur. Samtökin voru stofnuð af fólki sem ekki telur sig eiga skjól í Samtökunum 78 en Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri síðarnefndu samtakanna og varaþingmaður VG hefur sakað Samtökin 22 um hatur á trans fólki í pontu Alþingis.
„Því haturssamtök gegn trans fólki hafa í fyrsta sinn skilað inn umsögn til fastanefndar Alþingis. Þar er tilveruréttur trans fólks ekki einungis dreginn í efa heldur er þar sagt beinum orðum að trans fólk sé hreinlega ekki til. Og að samfélagið búi til trans fólk með ólöglegum skurðaðgerðum og lyfjanotkun. Allt saman hið mesta bull,“ sagði Daníel í umræðum á þingi í nóvember.
Segist ekki bera ábyrgð á upplifunum fólks
Fréttablaðið bar ábendingar til blaðsins um nafn Ivu á umsögn Samtakanna 22 undir Ivu. Hún segir rétt að hún hafi skrifað nafn sitt þar undir.
„En það gerði ég sem einstaklingur en ekki sem meðlimur hóps eða samtaka. Að öðru leyti mun ég ekki tjá mig um efnislegt innihald umsagnarinnar, en ég vil árétta að þar er hvergi að finna andúð né hatur. Ég geri mér grein fyrir að um viðkvæmt mál er að ræða en ég get ekki tekið ábyrgð á upplifunum fólks í tengslum við málefnið.“
Iva segir Ferðamálastofu aldrei hafa vísað í umrædda umsögn þegar hún hafi leitast eftir útskýringum á því hvers vegna hún hafi verið klippt út úr kynningarmyndbandinu.
„Að skrifa undir umsögn í samráðsgátt Alþingis getur varla talist sem rök til útilokunar einstaklinga þar sem um er að ræða vettvang stjórnvalda til samráðs við samfélagið um stefnumótun og lagasetningar. Það liggur í eðli málsins að þar komi fram mismunandi skoðanir. Ef menn myndu nú líka gefa sér tíma til að lesa umrædda umsögn er ekki að sjá þar hatur heldur óvinsæla hlið á viðkvæmu málefni.“
Hún segir það skjóta skökku við að Alþingi biðji um almenningsálit en að ríkisstofnun útskúfi svo einstaklingnum ef umbeðið álit þóknast ekki.
Aðspurð segist Iva ekki hafa heyrt í Ferðamálastofu frá því hún hafi reynt að leita sátta síðastliðnu helgi. „Ég er ekki tilbúin að ræða hvernig ég hyggst beita mér, en málið er í vinnslu.“