Söng­konan og laga­neminn Iva Marín Adrichem segist ekki vilja tjá sig um efnis­legt inni­hald um­sagnar Sam­takanna 22 um frum­varp til laga um bælingar­með­ferð sem birt var í októ­ber síðast­liðnum og hún ritaði nafn sitt undir. Hún segir þar hvorki að finna and­úð né hatur og segist hafa skrifað undir þá um­sögn sem ein­stak­lingur en ekki sem með­limur hóps eða sam­taka.

Til­efnið eru fréttir sem bárust af því í gær að Iva Marín hefði verið klippt út úr kynningar­mynd­bandi um að­gengi á vegum Ferða­mála­stofu, Sjálfs­bjargar lands­sam­bands og Ör­yrkja­banda­lags Ís­lands, að þeirra sögn á grund­velli skoðana hennar á trans fólki.

Í kjöl­farið fékk Frétta­blaðið á­bendingar um að nafn Ivu væri að finna undir um­deildri um­sögn Sam­takanna 22 um svo­kallað bælingar­frum­varp en mark­mið frum­varpsins er að gera refsi­vert að beita nauðung, blekkingum eða hótunum til að fá ein­stak­ling til að undir­gangast með­ferð í þeim til­gangi að bæla eða breyta kyn­hneigð, kyn­vitund eða kyn­tjáningu hans.

Í um­sögn Sam­takanna 22 til fasta­nefndar Al­þingis er varað við því að það geti leitt til þess að börn sem myndu annars vaxa úr grasi sem hommar eða lesbíur sæti ó­aftur­kræfri kyn­leið­réttingu fyrir sjálf­ræðis­aldur. Sam­tökin voru stofnuð af fólki sem ekki telur sig eiga skjól í Sam­tökunum 78 en Daníel E. Arnars­son, fram­kvæmda­stjóri síðarnefndu samtakanna og vara­þing­maður VG hefur sakað Sam­tökin 22 um hatur á trans fólki í pontu Al­þingis.

„Því haturs­sam­tök gegn trans ­fólki hafa í fyrsta sinn skilað inn um­sögn til fasta­nefndar Al­þingis. Þar er til­veru­réttur trans­ fólks ekki einungis dreginn í efa heldur er þar sagt beinum orðum að trans ­fólk sé hrein­lega ekki til. Og að sam­fé­lagið búi til trans­ fólk með ó­lög­legum skurð­að­gerðum og lyfja­notkun. Allt saman hið mesta bull,“ sagði Daníel í um­ræðum á þingi í nóvember.

Segist ekki bera á­byrgð á upp­lifunum fólks

Frétta­blaðið bar á­bendingar til blaðsins um nafn Ivu á um­sögn Sam­takanna 22 undir Ivu. Hún segir rétt að hún hafi skrifað nafn sitt þar undir.

„En það gerði ég sem ein­stak­lingur en ekki sem með­limur hóps eða sam­taka. Að öðru leyti mun ég ekki tjá mig um efnis­legt inni­hald um­sagnarinnar, en ég vil á­rétta að þar er hvergi að finna and­úð né hatur. Ég geri mér grein fyrir að um við­kvæmt mál er að ræða en ég get ekki tekið á­byrgð á upp­lifunum fólks í tengslum við mál­efnið.“

Iva segir Ferða­mála­stofu aldrei hafa vísað í um­rædda um­sögn þegar hún hafi leitast eftir út­skýringum á því hvers vegna hún hafi verið klippt út úr kynningar­mynd­bandinu.

„Að skrifa undir um­sögn í sam­ráðs­gátt Al­þingis getur varla talist sem rök til úti­lokunar ein­stak­linga þar sem um er að ræða vett­vang stjórn­valda til sam­ráðs við sam­fé­lagið um stefnu­mótun og laga­setningar. Það liggur í eðli málsins að þar komi fram mis­munandi skoðanir. Ef menn myndu nú líka gefa sér tíma til að lesa um­rædda um­sögn er ekki að sjá þar hatur heldur ó­vin­sæla hlið á við­kvæmu mál­efni.“

Hún segir það skjóta skökku við að Al­þingi biðji um al­mennings­á­lit en að ríkis­stofnun út­skúfi svo ein­stak­lingnum ef um­beðið álit þóknast ekki.

Að­spurð segist Iva ekki hafa heyrt í Ferða­mála­stofu frá því hún hafi reynt að leita sátta síðast­liðnu helgi. „Ég er ekki til­búin að ræða hvernig ég hyggst beita mér, en málið er í vinnslu.“