Ekki var hægt að útiloka orsakatengsl í einu tilviki einstaklings sem lést eftir að hafa fengið alvarlegar aukaverkanir í tengslum við bóluefni Pfizer hér á landi.

Í fjórum tilvikum er ekki talið, eða mjög ólíklegt, að um orsakatengsl milli bóluefnisins og alvarlegra aukaverkana sé að ræða. Þetta kom fram í máli Ölmu Möller, landlæknis, á upplýsingafundi Almannavarna í hádeginu.

Landlæknir, sóttvarnalæknir og forstjóri Lyfjastofnunar ákváðu að hefja rannsókn vegna tilkynntra aukaverkana við bóluefni Pfizer gegn kórónaveirunni en til rannsóknar voru fimm fyrstu alvarlegu tilkynningarnar sem bárust til Lyfjastofnunar, þar af fjögur andlát. Í öllum tilfellunum var um að ræða aldraða einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma sem búa á hjúkrunarheimilum. Niðurstöður rannsóknarinnar liggja nú fyrir en í einu tilviki var ekki hægt að útiloka orsakatengsl.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar er talið að andlátin hafi fremur átt skýringar í undirliggjandi ástandi þeirra einstaklinga sem létust.

„Það var ákveðið að taka þessar tilkynningar mjög alvarlega í ljósi þess að um nýtt bóluefni er að ræða og því fór fram þríþætt athugun. Í fyrsta lagi fór fram rannsókn á vegum embættis landlæknis, þar voru tveir sérfræðingar í öldrunarlækningum með sérstaka reynslu tengda lyfjameðferð aldraðra og greiningu aukaverkana sem fóru ítarlega yfir sjúkraskrá og gögn viðkomandi einstaklinga. Tilgangurinn var að rýna grunn heilsufar og framvindu fyrir og eftir bólusetningu og leggja mat á hvort að að um hugsanlega orsakatengsl væri að ræða. Niðurstaða þeirra er að í fjórum þessara tilvika sé ekki, eða mjög ólíklega, um orsakatengsl að ræða en í einu tilviki var ekki hægt að útiloka tengst með vissu þótt líklega hefði andlátið fremur átt skýringar í undirliggjandi ástandi þess einstaklings," segir Alma.

Andlát ekki fleiri

Í öðru lagi var farið yfir tölfræði dauðsfalla hérlendis og athugað hvort andlát væru fleiri þessar vikur en í venjulegu árferði. Ekki var um aukningu að ræða en áfram verður fylgst með þessari tölfræði.

„Það verður að hafa í huga að íbúar hjúkrunarheimila landsins eru upp til hópa hrumir einstaklingar með fjölda langvinnra sjúkdóma og að meðaltali þá andast átján einstaklingar úr þessum hópi á hverri viku," bætir Alma við.

Í þriðja lagi þá hafa Lyfjastofnun og sóttvarnalæknir sent fyrirspurnir til Lyfjastofnunar Evrópu og til Norðurlandanna um hvort þeir hafi fengið sambærilegar tilkynningar. Svörin eru að um einstaka tilkynnt dauðsföll hefur verið að ræða en almennt er talið að andlátin tengist undirliggjandi sjúkdómum .

Þarf að endurskoða hvort aldraðir verði bólusettir

Alma segir að varðandi bólusetningar þeirra eldri verði að halda áfram að vega og meta í hverju tilviki hvort bólusetja eigi einstaklinga, sérstaklega séu þeir nálægt leikslokum.

„Ef ástand einstaklings er versnandi þarf að fara fram einstaklingsbundið mat á hvort rétt er að fresta eða hætta við bólusetningu. Þetta mat þarf að gera í samráði við heilbrigðisstarfsmenn sem best þekkja einstaklinginn sem eru jafnan hjúkrunarfræðingar og læknar í samráði við viðkomandi einstakling og aðstandendur," segir Alma.

Bólusetningum hjá einstaklingum sem eru með bráð veikindi, hita eða annað slíkt þarf einnig að endurmeta. Þessar ráðleggingar eiga við um alla en ekki síst þá sem eldri eru.

Fyrir helgi höfðu sjö andlát hafa verið tilkynnt til Lyfjastofnunar eftir fyrstu bólusetninguna í lok desember, allt aldraðir með undirliggjandi sjúkdóma á hjúkrunar-eða dvalarheimili. Þá hafa alls 62 tilkynningar borist um aukaverkanir við bóluefni Pfizer.