Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar og áheyrnarfulltrúi undirbúningskjörbréfanefndar, telur að þrátt fyrir mikla og nákvæma vinnu undirbúningsnefndar hafi ekki tekist að sanna að kjörgögnin í Norðvesturkjördæmi séu ómenguð og þar með kjörbréfin.

„Í þokkabót við það að kjörgögnin voru sannarlega ekki varðveitt á réttan hátt, vantar líka upp á fundargerðir og gerðabók og staðfestingu á hinum ýmsu aðgerðum. Ég tel að eina leiðin til að sýna fram á skýran vilja kjósenda í Norðvesturkjördæmi sé uppkosning,“ segir Hanna Katrín í samtali við Fréttablaðið.

Hanna Katrín verður sjálf fjarverandi í atkvæðagreiðslunni á fimmtudaginn þar sem hún er stödd í vinnuferð í Berlín og mun María Rut Kristinsdóttir, varamaður, taka hennar sæti.

Hlutirnir ekki í lagi í Norðvesturkjördæmi

Aðspurð hvort nefndin hafi verið sammála um loka tillögur segir Hanna Katrín að nefndin hafi unnið gríðarlega vel saman, „verið ofboðslega samstíga í að leita upplýsinga og vega og meta.“

Framan af hafi nefndin forðast umræður sem gátu leitt í ljós einhvern greinarmun, „vegna þess að okkur greinir sannarlega ekki á að hlutirnir voru ekki í lagi í Norðvesturkjördæmi, um það erum við öll sammála,“ segir Hanna Katrín.

Hún segir að þegar stigið hafi á síðari hluta vinnunnar hafi komið í ljós meiningarmunur og að hann leiði af sér þær tvær tillögur sem nefndin leggur fram á Alþingi í dag.

„Það er að segja, að þeir annmarkar sem sannarlega voru til staðar séu ekki það miklir að það sé ástæða til annars en að seinni talningin gildi og hins vegar að annmarkar séu svo miklir að eina leiðin sé að fara í uppkosningu. Og þar liggja línurnar,“ segir Hanna Katrín.

Lögin heimili báðar leiðirnar

Hanna Katrín segir að tillögurnar tvær séu þær tvær leiðir sem nefndir geti samkvæmt lögum og sínu verksviði sammælst um.

„Okkur hefur verið sagt af til þess bærum aðilum að það sé hægt að færa lögfræðileg rök fyrir báðum niðurstöðum, lögin heimila hvora leiðina sem er í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru,“ segir hún.