Það eru blikur á lofti vegna upp­gangs fasískra við­horfa og ekki hægt að úti­loka að slík öfl berist til Ís­lands, að sögn Katrínar Jakobs­dóttur, for­sætis­ráð­herra. Hún var gestur í Frétta­vaktinni í kvöld, þar sem rætt var um fasísk við­horf.

„Við sjáum niður­stöður kosninga í Sví­þjóð, þar sem Sví­þjóðardemó­kratarnir fá alveg gríðar­legt fylgi og þykja orðið stjórn­tækir. Það er ekkert hægt að úti­loka að slík öfl berist til Ís­lands,“ segir Katrín.

Hefðir á Ís­landi séu góðar og sterkar en hún segir stjórn­málin á Ís­landi verði að gæta sér­stak­lega að því að tryggja jöfnuð og vel­sæld, því það sé ná­tengt lýð­ræðinu.

Upp­gangur fasískra við­horfa sé tví­þættur

Katrín segir upp­gang fasískra við­horfa vera tví­þættan. „Ég held að kannski megi annars vegar rekja til á­stands sem við getum talið upp hér sem lofts­lags­vána, aukinn ó­jöfnuð í heiminum, heims­far­aldur sem setur enn meiri pressu á sam­fé­lagið okkar þannig að það koma í ljós á­kveðnir brestir,“ segir hún og bætir við að þá upp­lifi fólk lýð­ræðis­þreytu og kalli eftir sterkum leið­togum.

Tækni­breytingar sé önnur á­stæða. „Fólk heldur sig í sínum kimum og er hætt að horfa á línu­lega dag­skrá, er hætt að horfa á ein­hverja eina miðlun upp­lýsinga, heldur velur sér og valið er fyrir það, af því að við erum með þessa sterku algó­ritma á ferð. Þannig að ég held að allt þetta ýti undir öfl þar sem sterkir leið­togar sem tala inn í það að fólk upp­lifi sig skilið eftir,“ segir Katrín.

Katrín segist sjá meiri af­lokun í ákveðnum hópum. „Það er meiri­háttar við­fangs­efni í stjórn­málum hvernig við getum tryggt þessa sam­fé­lags­legu sam­heldni, hvernig við getum náð öllum.“

Lok sett á frelsi fólks

„Ég held í fyrsta lagi að þetta mis­rétti sé gríðar­lega djúp­stætt. Þó við höfum náð stór­kost­legum fram­förum á undan­förnum árum fyrir bæði hin­segin og kyn­segin fólk, þá er þetta ansi grunnt af hinu góða,“ segir Katrín.

Hún tekur hæsta­réttar­dóminn í Banda­ríkjunum sem dæmi. „Þar sem yfir nótt eru tekin réttindi af helmingi þjóðarinnar.“

„Við sjáum þessa sömu þróun í mörgum öðrum löndum, að þetta sé ein­hvern veginn ógn við fjöl­skylduna, þetta er auð­vitað al­gjör­lega frá­leitt. Þetta er svo fjarri hug­myndum okkar að við megum öll vera eins og við erum. Það er verið að setja lok á það, á frelsi fólks til að vera það sjálft,“ segir Katrín.

Við­talið við Katrínu má sjá í heild sinni hér að neðan.