„Það er ekki hægt að upplifa verri sársauka en að sjá barn sitt barið í klessu af strák sem átti að vera kærasti hennar,“ segir Helga Sæunn Árnadóttir, móðir Kamillu Ívarsdóttur, 18 ára stúlka sem varð fyrir stórfelldri líkamsárás af hálfu fyrrum kærasta síns í fyrra.

Mæðgurnar ræddu um árásina í viðtali sem birtist í Kastljósi í kvöld. Kamilla hefur kært manninn fyrir líkamsárás og sætir hann einnig ákæru fyrir ítrekuð brot gegn nálgunarbanni.

Þríbrotin í andliti

Síðastliðinn október gekk hann í skrokk á Kamillu við höfnina. Árásin var afar hrottafengin en Kamilla vaknaði á spítala, þríbrotin í andliti með augntóftargólfsbrot báðum megin, nefbeinsbrot, opið sár á höfði og maráverka víðs vegar um líkama.

„Eini staðurinn sem ég var ekki með áverka á var vinstri eða hægri rasskinn,“ segir Kamilla.

Var hann úr­skurðaður í gæslu­varð­hald vegna á­rásarinnar og hafði þegar af­plánað hálfan dóminn í gæslu­varð­haldi. Hann var því laus úr fangelsi fljótlega eftir að dómur féll og var svo aftur handtekinn í júní eftir að hann réðist aftur á Kamillu

Vinkonan gat ekki þagað lengur

Kamilla kynntist stráknum þegar hún var 14 ára og hann 17. Hann hafi fyrst ýtt henni nokkrum mánuðum eftir að þau byrjuðu saman og ofbeldið versnaði bara með árunum. Hann hafi ítrekað lamið hana og slegið og í lokin hótað að drepa Kamillu og fjölskyldu hennar ef hún myndi fara frá honum.

Móðir Kamillu segist hafa heyrt fyrst af ofbeldinu sem kærasti Kamillu var að beita hana, þegar móðir kærastans hringdi í foreldra Kamillu.

Það var eftir Ljósanótt í Keflavík í fyrra þegar hann kýldi Kamillu í andlitið svo hún fékk blóðnasir og sprungna vör. Hún hafi falið áverka sína fyrir fjölskyldu sinni með því að segja að einhver hafi skallað hana óvart á balli.

„Mamma hans hringir í okkur. Tilkynnir okkur það að sonur hennar sé að berja dóttur okkar. Deginum áður var ég búin að fá mynd senda frá einni vinkonu hennar Kamillu þar sem hún sagði mér: „Ég get ekki þagað lengur. Ég ætla ekki að taka þátt í þessu. Þið verðið að fá að vita hvað er að gerast með dóttur ykkar.“ Þá fékk ég mynd af henni,“ segir Helga Sæunn.

Ekkert aðhafst í málinu

Hún hafi þá tilkynnt árásina til lögreglu. Hún hafi þurft á sofa á þessu í viku og ekki þorað að kæra hann strax af ótta við að hann myndi drepa Kamillu. Að lokum hafi hún ákveðið að fara með málið í kæruferli. En ekkert var aðhafst í málinu og fékk Helga Sæunn engar skýringar.

„Ég hringi og ég segi við hana að ég vilji henda þessu í kæruferli. Vegna þess að þetta endar með morði. Og það var ekkert gert og ég vissi ekki neitt af því fyrr en eftir stóru árásina í október að þetta lá bara ofan í skúffu.“

Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni á vef RÚV.