Yousef Ingi Tamimi, hjúkrunafræðingur og stjórnarmeðlimur í Félaginu Ísland-Palestína, gagnrýnir viðbrögð utanríkisráðherra við árásum Ísraelsstjórnar á Palestínu.

Guðlaugur Þór Þórðarson ráðherra sendi frá sér yfirlýsingu í vikunni þar sem hann biðlaði til „allra hliða“ að hætta að berjast. Yousef segir gallann við yfirlýsingu Guðlaug vera að tala um að „báðar hliðar“ eigi að sýna stillingu í hernámi.

„Það er vitað að það er hernám í gangi Í Palestínu, að einn aðili sé að hernema annan, það fer ekki á milli mála. Þjóðir, sem verið er að hernema, hafa rétt á því að berjast til baka, að beita vopnum gegn hernámsliði. Að biðja báðar, eða allar hliðar, að sýna stillingu er fyrir mér eins og að biðja þolanda ofbeldis um að hætta að verja sig,“ segir Yousef í samtali við Fréttablaðið.

Komast upp með mannréttindabrot

Staðan milli Ísraelsmanna og Palestínumanna hefur aukist til muna síðastliðna daga. Ísraelsher hefur varpað sprengjum á íbúðabyggingar í Gaza og mætt óbreyttum borgurum á götum úti við Vesturbakkann. Múgæsingur hefur myndast víða um allt Ísrael og hafa öfga-hægri hópar leitað uppi Araba til að beita þá ofbeldi.

Að minnsta kosti 119 manns hafa fallið í Gaza, þar á meðal 31 barn. Í Ísrael hafa átta manns fallið, þar á meðal tvö börn.

„Það er harmleikur í hvert sinn sem einhver deyr, hvort sem það er í Palestínu eða Ísrael, við fögnum ekki dauða neins. En nú hafa rúmlega 30 börn verið drepin í Palestínu. Það eru ekki tvær hliðar á þessu máli, það er eitt ríki að hernema, arðræna og beita stöðugu og linnulausu ofbeldi gegn Palestínumönnum svo ég þakka bara utanríkisráðherra fyrir að segja ekki neitt.“

„Ef Ísrael finnur ekki fyrir afleiðingum gjörða sína, þá hætta þeir ekki.“

Yousef ítrekar mikilvægi þess að ríkisstjórn Íslands taki skýra afstöðu og leggi viðskiptabann á Ísrael.

„Hvers vegna erum við að taka Ísrael út fyrir svigann? Um leið og Rússland réðst inn á Krímskagann settum við viðskiptabann á Rússland. Við settum viðskiptaþvinganir á Kína vegna mannréttindabrota, en af einhverjum ástæðum fær Ísrael að komast upp með ítrekuð mannréttindabrot, hernám, arðrán og þjóðernishreinsanir,“ segir Yousef og bætir við: „Ef Ísrael finnur ekki fyrir afleiðingum gjörða sína, þá hætta þeir ekki.“

Fyrir utan Al-Shifa sjúkrahúsið á Gaza: 31 barn hefur látist í loftárásum Ísraela.
Fréttablaðið/Getty images

Félagið Ísland-Palestína hefur boðað við mótmæla á Austurvelli á morgun, laugardaginn 15. maí klukkan 13:00, til stuðnings Palestínu undir yfirskriftinni „Stöðvum blóðbaðið - #sheikhJarrah“.