Tölu­verð um­ræða hefur verið undan­farið um grímu­skyldu á hár­greiðslu­stofum og vill sumt hár­snyrti­fólk meina að ó­sann­girni gæti þegar kemur að kröfum um notkun sótt­varna­gríma hjá þeirra starfs­stétt.

Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, blæs á slíka gagn­rýni og segir grímu­skyldu alltaf gilda þar sem ekki er hægt að við­halda eins metra fjar­lægðar­tak­mörk og þar sem fólk á í nánu sam­neyti í lengri tíma.

Hár­snyrtirinn Böðvar Þór Eggerts­­son sagðist í sam­tali við RÚV í gær vera gáttaður á því að fá ekki að losna við grímuna með breyttum sótt­varna­reglum þar sem ekki sé grímu­­skylda lengur á ýmsum stöðum svo sem á verslunum og veitinga­stöðum.

„Ég held að flest hár­­snyrti­­fólk í landinu hafi reiknað með því að við værum að fara að losna við grímurnar,“ sagði Böðvar í ljósi þess að starfs­­fólkið hafi nú verið með grímurnar í átta tíma á dag í rúmt ár.

„Svo þegar ég er búinn með hana, þá getum við rölt hér út, farið í happy hour á ein­hvern bar, klesst upp við hvort annað og jafn­vel bara í sleik ef út í það er farið,“ sagði hann.

Böðvar Þór Eggertsson, hár­snyrtir.
Mynd/Facebook

Nauðsynlegt að líta einnig til tímalengdar

Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að alls staðar sé grímu­skylda þar sem ekki sé hægt að fylgja eins metra reglunni.

„Það er þannig að þar sem ekki er hægt upp­fylla meters regluna hjá ó­tengdum aðilum er grímu­skylda og það gildir alls staðar. Auð­vitað tekur fólk grímuna niður þegar það er að borða eða drekka því það ekki hægt að gera það með grímu,“ segir hann.

„Svo verður líka að líta til tíma­lengdarinnar sem fólk er í mikilli nánd eins og til dæmis á hár­greiðslu­stofu,“ bæti Þór­ólfur við en þegar lagt er mat á hverjir þurfa að fara í sótt­kví eftir að hafa um­gengist ein­stak­ling sem smitaður er af Co­vid-19 er meðal annars litið til tíma­lengdar sam­skiptanna.

Hvað varðar grímu­skyldu á stærri við­burðum segir Þór­ólfur þá stað­reynd að allir gestir sem þangað komi hafi undir­gengist hrað­próf skipta sköpum.

„Einu raun­veru­legu að­stæðurnar þar sem að grímu­skyldan er felld niður með breytingu á reglunum er á þessum stóru við­burðum þar sem fólk hefur farið í próf áður en það mætir,“ segir hann.