Ekki verður hægt að skima þá sem koma til landsins fyrir kórónu­veirunni ef af verk­falli hjúkrunar­fræðinga verður. Skimun við landa­mærin á að hefjast þann 15. júní en hjúkrunar­fræðingar hafa nú sam­þykkt að fara í ó­tíma­bundið verk­fall viku síðar, þann 22. júní, ef ekki tekst að semja um nýja kjara­samninga við ríkið fyrir þann tíma.

Ragn­heiður Ósk Er­lends­dóttir, fram­kvæmda­stjóri hjúkrunar hjá Heilsu­gæslu höfuð­borgar­svæðisins og með­limur í undir­búnings­hópi utan um opnun landa­mæranna, sagði í kvöld­fréttum RÚV í dag að málið væri mikið á­hyggju­efni. Fyrstu tvær vikur skimunarinnar væru hugsaðar sem til­rauna­tíma­bil til að sjá hvernig það gengi að skima fólk við landa­mærin. Skimanirnar verða gjald­frjálsar fyrstu tvær vikurnar.

„Ef við fáum verk­fall í mitt það tíma­bil þá sé ég ekki alveg hvernig þetta á að geta gengið upp,“ sagði hún. „Við erum með mikið af hjúkrunar­fræðingum í þessu verk­efni, bæði að stýra verk­efninu og halda utan um það, þannig að ég sé ekki að við náum að halda þessu opnu ef að af verk­falli verður.“

Að­spurð hvort hægt verði að fá undan­þágur fyrir hjúkrunar­fræðinga frá verk­fallinu til að sinna skimuninni segir Ragn­heiður það alls ekki víst. „Við munum að sjálf­sögðu gera það [biðja um undan­þágur] en það er ekkert í höfn að við fáum þær,“ segir hún. „Við erum með lítið af undan­þágum eins og á heilsu­gæslu­stöðvunum. Við erum með einn yfir­mann á hverri stöð sem fær undan­þágu.“

Kjaradeilan í hnút

Undir­búningur fyrir skimunina er nú í fullum gangi enda að­eins rúm vika í að verk­efnið fari af stað. Þeir sem hingað koma til lands eftir 15. júní býðst þannig að fara í skimun í stað þess að fara í tveggja vikna sótt­kví. Einnig verður hægt að fram­vísa gildu vott­orði um að hafa fengið veiruna og jafnað sig af henni eða vott­orði sem sýnir að við­komandi sé ný­lega búinn að fara í skimun.

Kjara­samningar hjúkrunar­fræðinga hafa verið lausir í rúmt ár og virðist kjara­deila þeirra við ríkið vera í hnút. Eftir því sem Frétta­blaðið kemst næst hefur lítið gerst á undan­förnum fundum samninga­nefnda ríkisins og Fé­lags ís­lenskra hjúkrunar­fræðinga, sem gæti leitt til þess að þær nái saman á næstunni. Ríkis­sátta­semjari hefur boðað til nýs fundar í kjara­deilunni eftir há­degi á morgun.

Hjúkrunar­fræðingar sam­þykktu að fara í verk­fall þann 22. júní með af­gerandi meiri­hluta í raf­rænni kosningu á föstu­daginn. Samninga­nefndirnar höfðu áður náð saman um samning en hann var felldur í kosningu hjúkrunar­fræðinga í lok apríl. Launa­liður samningsins var það sem hjúkrunar­fræðingar gátu ekki sætt sig við.