Mjög hefur dregið úr eldgosinu í Meradölum og rennsli þess samkvæmt niðurstöðum mælinga á gosinu frá laugardegi til mánudags sem Jarðvísindastofnun birti í gær.

„Miðað við nýjustu tölur þá virðist rennslið vera komið í kringum þrjá til fjóra rúmmetra á sekúndu,“ segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur. „Ef þær tölur eru réttar og þetta dettur mikið niður fyrir þrjá rúmmetra þá eiginlega stöðvast gosið.“

Þorvaldur segir að þótt gosið hafi hegðað sér ágætlega þá sé alltaf eitthvað sem komi á óvart.

„Þyngdin á nýja hrauninu er það mikil að hún hefur ýtt út kjarnanum í 2021 hrauninu,“ segir hann og bendir á hve mikið rúmmál hraunsins hafi verið. „Það er verið að meta þetta upp á einhverja 650 þúsund rúmmetra sem eru að koma út úr þessu endurgosi, ef svo má kalla.“

Þegar kemur að mælingum er með nægu að fylgjast í gosinu.

„Á meðan við getum erum við með næstum daglegar mælingar á útbreiðslu hraunsins og svo höfum við verið að gera ýmsar athuganir á gígvirkninni, hvernig kvikustrókarnir hegða sér, skoðum gasbólumyndanir og fleira,“ segir hann. „Við höfum mikið meira en nóg að gera.“

Í augnablikinu segir Þorvaldur ekki líklegt að kvikan komi upp annars staðar en í Meradölum.

Þorvaldur segir mikið meira en nóg að gera hvað rannsóknir í kringum gosið varðar.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Við getum þó ekki útilokað neitt,“ segir hann og dregur fram tvær mögulegar sviðsmyndir. „Annars vegar er sú sviðsmynd að gosið sé komið á einhverja framlínu sem gæti haldið því í gangi og það geti verið að malla í einhverjar vikur eða jafnvel mánuði. Hins vegar er sú sviðsmynd að þessi stöðuga minnkun í framlínunni sýni að gosið sé búið að missa dampinn og sé að því komið að hætta.“

Björgunarsveitarfólk hefur verið undir talsverðu álagi vegna hins mikla fjölda fólks sem leggur leið sína að Meradölum til að skoða gosið. Umhverfisstofnun auglýsti nýlega eftir landvörðum til að létta undir álaginu sem vonast er til að geti tekið til starfa um mánaðamótin.

„Þetta er auðvitað alltaf smá pressa en álagið hefur verið svona innan marka,“ segir Steinar Þór Kristinsson hjá Björgunarsveitinni Þorbirni. Þótt lokað sé á gosstöðvunum í dag sé þó full ástæða til að vera á tánum. „Það var nú um daginn sem við vorum að grennslast fyrir um fólk sem var villt og týnt, en það fór vel.“