Helga Vala Helga­dóttir, þing­maður Sam­fylkingarinnar, var gestur í hlað­varpinu Arnar­hóll í vikunni þar sem hún var meðal annars spurð um hvers vegna hún ákvað að bjóða sig fram til vara­for­manns Sam­fylkingarinnar.

„Í fyrsta lagi hef ég tekið fjöl­mörgum á­skorunum síðasta rúmt ár. Ég hef ýtt því frá mér, því ég per­sónu­lega þarf ekki meira pláss eða sviðs­ljós. Það er ekki per­sónu­legur metnaður minn að verða vara­for­maður í stjórn­mála­flokki en hins vegar er ekki hægt að neita því að for­ystan gæti verið sterkari,“ segir Helga Vala í við­talinu.

Heiða Björg Hilmis­dóttir, nú­verandi vara­for­maður Sam­fylkingarinnar, gefur kost á sér til á­fram­haldandi stjórnar­setu. Í við­talinu bendir Helga Vala hins vegar á að það sé nauð­syn­legt að styrkja for­ystuna fyrir komandi þing­kosningar.

„Við erum að fara í mjög mikil­vægar þing­kosningar sem ég lít á sem ein­hverjar þær mikil­vægustu í sögu flokksins því við nánast þurrkuðumst út fyrir ekki svo löngu síðan, fyrir fjórum árum. Ég hef bara mjög mikinn metnað fyrir hönd Sam­fylkingarinnar. For­ystan gæti verið sterkari, sýnt meiri breidd og verið kjarkaðri,“ segir Helga Vala.

Hún segir einnig að innra starf flokksins sé veik­burða og það þurfi að styðja betur við aðildar­fé­lögin í kringum landið. „Sum eru öflug en sum eru veik­byggð og veik­burða. Ég lít svo á að ég geti hnoðað lífi í þau.“

„Það er ekki hægt að horfa fram­hjá þessum röddum“

Spurð um hvort það væri þá ekki nær­tækara að styrkja nú­verandi varafor­mann fremur en að koma með mót­fram­boð, segir hún Sam­fylkinguna vera lýð­ræðis­legan flokk.

„Það getur vel verið að ein­hverjum finnist það. Hún er búin að vera vara­for­maður í næstum því fjögur ár en staðan er þessi að það er mörgum sem finnst for­ystan okkar ekki nægjan­lega sterk. Það er ekki hægt að horfa fram­hjá því og ekki hægt að blása á þær raddir. Logi [Einarsson] er for­maður og hann er mjög vin­sæll for­maður og það er alveg skýrt,“ segir Helga Vala.

„Þá er spurningin ætlar maður að styðja við hann frekar og gera hann enn­þá sterkari eða ætlar maður að leyfa þessu að vera svona. Það er ekki hægt að horfa fram­hjá þessum röddum.“

Hún segir þetta sé ekkert per­sónu­legt gagn­vart nú­verandi vara­for­manni hins vegar hafa of mörg aðildar­fé­lög Sam­fylkingarinnar verið sofandi og hafa ekki orðið þess á­skynja að það sé mikill á­hugi fyrir þeirra starfi.

„Þetta er bara svona. Þá þarf maður að horfa og hugsa er maður til í að blása líf í þetta? og vera með smá stuð og stemmingu?“ segir Helga.

Ríkisstjórn með Viðreisn, Pírötum og mögulega Framsókn

Spurð um mögu­leikann á kosninga­banda­lagi sagðist hún ekki vera hrifin af slíku eftir „kata­strófuna“ árið 2016.

„En ég held að flokkarnir þurfa að vera skýrir með það að þeim hugnist að vinna með á­kveðnum flokkum,“ segir Helga Vala.

Hún segist sjá fyrir sér stjórnarsamtarf með Við­reisn, Pírötum og mögu­lega Fram­sókn ef allir þessir flokkar ásamt Samfylkingunni næðu góðu kjöri eftir kosningar.

„Ef að þessir flokkar gætu myndað saman ríkis­stjórn eftir næstu kosningar það væri bara sin­fónía í mínum eyrum,“ segir Helga Vala í lok við­talsins.

Hægt er að hlusta á við­talið við Helgu Völu í heild hér en Arnar­hóll er nýr hlað­varps­þáttur um stjórn­mál á Ís­landi.