Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, var gestur í hlaðvarpinu Arnarhóll í vikunni þar sem hún var meðal annars spurð um hvers vegna hún ákvað að bjóða sig fram til varaformanns Samfylkingarinnar.
„Í fyrsta lagi hef ég tekið fjölmörgum áskorunum síðasta rúmt ár. Ég hef ýtt því frá mér, því ég persónulega þarf ekki meira pláss eða sviðsljós. Það er ekki persónulegur metnaður minn að verða varaformaður í stjórnmálaflokki en hins vegar er ekki hægt að neita því að forystan gæti verið sterkari,“ segir Helga Vala í viðtalinu.
Heiða Björg Hilmisdóttir, núverandi varaformaður Samfylkingarinnar, gefur kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Í viðtalinu bendir Helga Vala hins vegar á að það sé nauðsynlegt að styrkja forystuna fyrir komandi þingkosningar.
„Við erum að fara í mjög mikilvægar þingkosningar sem ég lít á sem einhverjar þær mikilvægustu í sögu flokksins því við nánast þurrkuðumst út fyrir ekki svo löngu síðan, fyrir fjórum árum. Ég hef bara mjög mikinn metnað fyrir hönd Samfylkingarinnar. Forystan gæti verið sterkari, sýnt meiri breidd og verið kjarkaðri,“ segir Helga Vala.
Hún segir einnig að innra starf flokksins sé veikburða og það þurfi að styðja betur við aðildarfélögin í kringum landið. „Sum eru öflug en sum eru veikbyggð og veikburða. Ég lít svo á að ég geti hnoðað lífi í þau.“
„Það er ekki hægt að horfa framhjá þessum röddum“
Spurð um hvort það væri þá ekki nærtækara að styrkja núverandi varaformann fremur en að koma með mótframboð, segir hún Samfylkinguna vera lýðræðislegan flokk.
„Það getur vel verið að einhverjum finnist það. Hún er búin að vera varaformaður í næstum því fjögur ár en staðan er þessi að það er mörgum sem finnst forystan okkar ekki nægjanlega sterk. Það er ekki hægt að horfa framhjá því og ekki hægt að blása á þær raddir. Logi [Einarsson] er formaður og hann er mjög vinsæll formaður og það er alveg skýrt,“ segir Helga Vala.
„Þá er spurningin ætlar maður að styðja við hann frekar og gera hann ennþá sterkari eða ætlar maður að leyfa þessu að vera svona. Það er ekki hægt að horfa framhjá þessum röddum.“
Hún segir þetta sé ekkert persónulegt gagnvart núverandi varaformanni hins vegar hafa of mörg aðildarfélög Samfylkingarinnar verið sofandi og hafa ekki orðið þess áskynja að það sé mikill áhugi fyrir þeirra starfi.
„Þetta er bara svona. Þá þarf maður að horfa og hugsa er maður til í að blása líf í þetta? og vera með smá stuð og stemmingu?“ segir Helga.
Ríkisstjórn með Viðreisn, Pírötum og mögulega Framsókn
Spurð um möguleikann á kosningabandalagi sagðist hún ekki vera hrifin af slíku eftir „katastrófuna“ árið 2016.
„En ég held að flokkarnir þurfa að vera skýrir með það að þeim hugnist að vinna með ákveðnum flokkum,“ segir Helga Vala.
Hún segist sjá fyrir sér stjórnarsamtarf með Viðreisn, Pírötum og mögulega Framsókn ef allir þessir flokkar ásamt Samfylkingunni næðu góðu kjöri eftir kosningar.
„Ef að þessir flokkar gætu myndað saman ríkisstjórn eftir næstu kosningar það væri bara sinfónía í mínum eyrum,“ segir Helga Vala í lok viðtalsins.
Hægt er að hlusta á viðtalið við Helgu Völu í heild hér en Arnarhóll er nýr hlaðvarpsþáttur um stjórnmál á Íslandi.