Næstu dagar munu segja til um hvort víð­tæk bólu­setning gegn CO­VID-19 á Ís­landi muni koma í veg fyrir frekari út­breiðslu kóróna­veirunnar en tveir ein­staklingar, báðir bólu­settir, greindust með veiruna í gær. Ekki hefur tekist að rekja upp­runa þeirra smita en flest smit síðustu daga má rekja til landa­mæranna.

„Við vitum að það er leki á landa­mærunum og veiran getur komið inn en það er þá spurning hvort við getum gert eitt­hvað frekar á landa­mærunum til að koma í veg fyrir að það komi inn smit, það er svona ýmis­legt í skoðun,“ segir Þór­ólfur í sam­tali við Frétta­blaðið, að­spurður um hvort staðan kalli á að­gerðir frá honum.-

Reglur í gildi á landamærunum til 15. ágúst

Á mið­nætti að­fara­nótt 26. júní voru allar tak­markanir innan­lands vegna CO­VID-19 felldar niður en á­fram eru tak­markanir á landa­mærunum og gildir nú­verandi reglu­gerð til 15. ágúst næst­komandi.

Þannig þurfa allir sem koma til landsins að vera með vott­orð um fulla bólu­setningu eða fyrri sýkingu og frá 1. júlí síðast­liðnum eru þeir ein­staklingar, sem og óbólu­sett börn, ekki skimaðir. Ein­staklingar sem geta ekki fram­vísað vott­orðum að vera með nei­kvætt PCR vott­orð og þurfa að fara í tvö­falda skimun með sótt­kví á milli.

Skoða hvað hægt er að gera

Að sögn Þór­ólfs gæti það vel gerst að að­gerðirnar á landa­mærunum verði hertar en yfir­völd þurftu að falla frá skimun bólu­settra þar sem þau höfðu ekki nægan mann­afla til að sinna straumi ferða­manna sem nú koma til landsins.

„Það er spurning hvort við getum gert eitt­hvað annað til þess að lág­marka á­hættuna á að veiran komi hingað inn. Við munum aldrei geta gert neitt til að al­farið koma í veg fyrir það, ég held að það sé nokkuð ljóst, en við getum reynt að lág­marka það og draga úr því eins og mögu­legt er,“ segir Þór­ólfur.