„Þetta eru auðvitað stórtíðindi í málinu,“ segir Karl Gauti Hjaltason, fyrrverandi alþingismaður, um sektir sem lögreglustjórinn á Vesturlandi, hefur gert meðlimum yfirkjörstjórna í Norðvesturkjördæmi að greiða.

Yfirkjörstjórnin er sektuð fyrir að hafa vanrækt að innsigla kjörgögn eftir talningu atkvæðaseðla í kosningunum til Alþingis í 25. september. Karl Gauti féll út af þingi við endurtalningu í kjördæminu og kærði framkvæmd endurtalningarinnar til lögreglu.

„Ég efast ekki um að menn munu draga mjög ákveðnar ályktanir af þessari niðurstöðu rannsóknar lögreglu,“ segir Karl Gauti. Alþingi sem nú hefur framkvæmd kosninganna í Norðvesturkjördæmi til skoðunar hljóti að taka mið af þessu.

Einboðið að fyrsta niðurstaðan sé rétt

„Varla telur nokkur maður verjandi að byggja úrslit alþingiskosninga á síðari talningunni sem reist er á gögnum sem voru meðhöndluð á þann hátt að lögregla telur það refsivert lögbrot,“ segir Karl Gauti sem telur einboðið að niðurstaða fyrstu talningarinnar sé sú eina sem geti gilt.

„Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að ekki hafa komið fram neinar athugasemdir um talningu atkvæða eða meðferð kjörgagna á kosninganótt og þær lokatölur sem tilkynntar voru á sunnudagsmorgni úr Borgarnesi,“ segir Karl Gauti Hjaltason.

Starfsmenn sýslumannsins á Vesturlandi töldu i gær að viðstöddum meðlimum undirbúningsnefndar fyrir rann­sókn kjör­bréf og fulltrúum Fréttablaðsins alla þá atkvæðaseðla sem ekki voru nýttir í Norðvesturkjördæmi í kosningnum. Niðurstaða var sú að fjöldi atkvæðaseðla sem urðu afgangs stemmdi við heildarfjölda seða með tilliiti til þeirra atkvæðaseðla sem talning í kosninguum náði til.

Undirgangist meðlimir yfirkjörstjórnarinnar ekki sektirnar mega þeir búast við ákæru fyrir bort á kosningalögum.