Kamilla Sig­ríður Jósefs­dóttir, stað­gengill sótt­varna­læknis, segir ó­mögu­legt að segja til um hvernig veikindi í þessari bylgju far­aldursins eru saman­borið við fyrri bylgjur þar sem of skammur tími er liðinn. Þrjá daga í röð hefur dag­legur fjöldi smita farið yfir 100 og virðist ekkert lát vera á nýjum sýkingum.

„Það er bara svo stutt síðan að bylgjan byrjaði að við erum ekki búin að átta okkur á því hvernig það verður, því flestir sem fá al­var­leg ein­kenni fá þau þegar önnur vika veikinda er að hefjast og það er mjög erfitt að segja til um það núna,“ segir Kamilla í sam­tali við Frétta­blaðið.

Að sögn Kamillu eru eldri ein­staklingar nú að greinast í auknum mæli, sem veikjast frekar en þeir yngri alla jafna, og því gæti al­var­lega veikum fjölgað. „Við vitum í rauninni ekki hvort þeir muni veikjast al­var­lega fyrr en í fyrsta lagi eftir næstu helgi. Þannig við bara getum ekki gert sumar af þessum greiningum sem við þurfum,“ segir Kamilla

Eins og staðan er í dag eru tíu ein­staklingar inni­liggjandi á Land­spítala vegna CO­VID-19, þar af tveir á gjör­gæslu. Þar að auki eru hátt í þúsund manns í eftirliti hjá COVID-göngudeildinni.

Að­spurð um hversu margir þeirra hafi verið bólu­settir segir Kamilla að það þurfi að fara nánar yfir þau gögn, og slíkt sé ekki hægt að gera dag­lega, en gerir ráð fyrir að slíkt verði gefið út þegar öll vikan liggur fyrir.

Að­spurð um hvort dreifing bólu­efna sé jöfn í þeim til­fellum sem þegar er búið yfir segir Kamilla að þau muni fara vel yfir það. Hún vísar til þess að flestir í yngri aldurs­hópum hafi fengið Jans­sen á meðan elsti aldurs­hópurinn fékk helst Pfizer og því þurfi að aldurs­greina smitin og aldurs­greina bólu­setta.

„Við þurfum að vera viss um að við séum búin að setja þetta upp á sem bestan hátt áður en við förum að dreifa því svo við förum ekki ó­vart að segja að eitt­hvað sé verra en það raun­veru­lega er,“ segir Kamilla. „Það er svo hættulegt ef við vanmetum góðu áhrifin af bólusetningunni ef við gerum ekki þessa aldursgreiningu.“