Enn er ekki hægt að af­létta rýmingu á því svæði Seyðis­fjarðar sem hefur verið rýmt yfir há­tíðirnar eftir aur­skriðurnar sem féllu þar um miðjan síðasta mánuð. Hættu­stig al­manna­varna er á­fram í gildi í bænum.

Á­kvörðun um þetta var tekin á fundi al­manna­varna, lög­reglu­stjórans á Austur­landi og rað­gjafa þeirra í morgun.

Í dag ganga hlýindi yfir og því verður ekki unnið af fullum krafti innan þess svæðis sem stóra skriðan féll á þann 18. desember síðast­liðinn. Hreinsunar- og við­gerðar­starf verður unnið utan þess svæðis og búið í haginn vegna vinnu komandi viku. Veður­út­lit er betra þá og má búast við að vinna fari af stað af fullum krafti á svæðinu á morgun.

„Þrátt fyrir að upp­taka­svæði skriðanna sé ekki innan rýmingar­reits, þá er á­réttað að þar getur verið hættu­legt að fara um vegna lausra jarð­laga, skriðu­brúna og sprungna sem hafa myndast,“ segir í til­kynningu al­manna­varna.

Fylgst verður með að­stæðum í dag, farið upp í Botna­brún, sprungur skoðaðar og gerðar mælingar á hreyfingu jarð­laga. Engin hreyfing mældist í morgun en hún hefur verið lítil sem engin undan­farna viku.