„Þetta er náttúrulega algjörlega óboðlegt og óþolandi,“ segir Arndís Anna Kristínar Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata og nefndarmaður allsherjar- og menntamálanefndar, um handtöku og gæsluvarðhald írakskrar fjölskyldu í gærdag sem vísað var úr landi í nótt.
Arndís segist hafa haft fregnir af aðgerðum lögreglu úr mörgum áttum um miðjan dag í gær. Þá geri hún ráð fyrir því að fleiri flóttamenn hafi verið um borð í leiguvélinni sem hélt til Grikklands rétt fyrir klukkan fimm í morgun
„Á síðustu dögum hefur lögreglan gengið mjög hart fram við að handtaka fólk um allan bæ, leita það uppi, með það miklum asa að það er ekki hægt að ætla annað en að það hafi verið hópferð í nótt,“ segir Arndís.
Aðspurð segir hún aðgerðir lögreglu við þessa framkvæmd gríðarlega alvarlegt mál.
„Það virðist vera sem að það sé ekki tekið tillit til þess að þarna er einstaklingur með ákveðnar sérþarfir og það er bara mjög alvarlegt mál,“ segir Arndís.
Arndís telur að slíkar aðgerðir verði það sem koma skal í málefnum flóttafólks ef frumvarp dómsmálaráðherra, Jóns Gunnarssonar, um málefni útlendinga nær fram að ganga.
„Ég vil benda fólki á það að þetta er framkvæmdin með löggjöfina eins og hún er í dag. Þannig að fólk getur rétt ímyndað sér hvernig hún verður ef hann nær sínu framgengt,“ segir Arndís.
Þá geri hún ráð fyrir því að dómsmálaráðherra muni verja ákvörðunina um brottflutning fjölskyldunnar sem og framkvæmdina, en formaður allsherjar- og menntamálanefndar, Bryndís Haraldsdóttir, hefur óskað eftir fundi nefndarinnar með dómsmálaráðherra í næstu viku.
„Ég tel ég niðurstöðuna í þessu máli upphaflega vera ranga og stjórnvöld hafa haft mörg tækifæri til að snúa þessu við í þessu máli. Það er ekkert í lögunum sem skyldar stjórnvöld til að koma svona fram við fólk, ekkert,“ segir Arndís.