Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir mikilvægt að fólk fari ekki að slaka á sóttvörnum sínum í ljósi jákvæðra fregna af þróun bóluefnis gegn COVID-19.

Þá sagði hann ekki vera hægt gera ráð fyrir því mögulegt verði að hefja bólusetningar hér fljótlega eftir áramót líkt og sumir hafi haft orð á.

„Það yrðu ánægjulegar fréttir ef svo verður en ég held að það sé ekki hægt að ganga út frá því sem vísu á þessari stundu.“

„Pössum okkur á því að láta ekki jákvæðar fréttir af bóluefnum leiða til þess að við hættum að passa okkur í sóttvörnum, því það mun einungis leiða til uppsveiflu í faraldrinum aftur,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Hópsýking kom upp í bænahópi

Fjórtán einstaklingar greindust innanlands með COVID-19 í gær sem er svipaður fjöldi og sést hefur undanfarna daga.

Þórólfur bætti við að undanfarna daga hafi greinst ýmsar litlar hópsýkingar í samfélaginu, til að mynda á leikskóla, í bænahópi, innan fjölskyldna og í vinahópum.

Þórólfur sagði jákvætt að einungis einn hafi verið utan sóttkvíar við greiningu og næstu dagar muni leiða í ljós hvort faraldurinn sé aftur kominn í rénun.

Allir sem greindust í gær eru með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu en mikill fjöldi sýna var tekinn í gær og hefur hlutfall jákvæðra sýna minnkað í 0,6%.

Þórólfur vonast til að þetta sé vísbending um að fólk sé að fara í sýnatöku við minnstu einkenni og að samfélagssmitum fari fækkandi. Þó þurfi næstu dagar að leiða í ljós hvort sú sé raunin.

Fréttin hefur verið uppfærð.