Almannavarnir hyggjast ekki grípa til sérstakra öryggisaðgerða vegna óveðurs sem búist er við að ríði yfir landið á morgun. Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir um allt landið vegna veðurs, ýmist vegna væntanlegrar hríðar eða hvassviðris eða storms.

„Við erum eins og alltaf að fylgjast með,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri Almannavarna. „Á hverjum degi er Veðurstofan með fund sem við tökum alltaf þátt í. Í dag kom fram það sem við vissum, að það veðrið yrði vont í nótt. En við metum það sem svo akkúrat núna að það þurfi ekki meira viðbrögð en bara að senda út gula viðvörun eins og Veðurstofan gerir.“

Hjördís segir að Almannavarnir og Vegagerðin séu „með auga á boltanum“ en telji ekki efni til frekari viðbragða eins og staðan er núna. Ekki sé búist við því að veðrið verði eins slæmt og fárviðrið sem fór yfir Ísland fyrr í vikunni, þegar appelsínugular viðvaranir voru gefnar út víða um landið.