Ekki er gert ráð fyrir breytingum á leiðakerfi Icelandair þrátt fyrir breytingar á starfshlutfalli flugmanna segir Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair. Bogi segir að frekari breytingar á rekstri Icelandair séu ekki á döfinni en að félagið sé að skoða allt til að bæta reksturinn.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá í dag ætlar Icelandair að lækka starfshlutfall 111 flugmenn niður í 50 prósent starf færa 30 flugstjóra í tímabundið í starf flugmanns vegna óvissu um Boeing 737 MAX vélarnar.

„Það er auðvitað mjög leiðinlegt að þurfa að grípa til þessara aðgerða en á sama tíma nauðsynlegt,“ segir Bogi Nils Boga­son, for­stjóri Icelanda­ir Group, í samtali við Fréttablaðið.

„Við sjáum ekki fyrir okkur aðrar stórar breytingar en við erum stöðugt að skoða hvað við getum gert betur í okkar rekstri.“

Upphaflega hafði félagið gert ráð fyrir níu MAX vélum í flotanum á þessu ári. Icelandair áætlaði að fá afhentar fimm nýjar MAX-vélar snemma á næsta ári. Allar vélar af þeirri gerð voru kyrrsettar fyrr á árinu eftir að tvær vélar hröpuðu í Indónesíu og í Eþíópíu með þeim afleiðingum að 349 manns létust.

Lækka starfshlutfall vegna óvissu

Vegna óvissustöðunnar var gripið til þess ráðs að lækka starfshlutfall flugmanna.

„Við vorum búin að gera ráð fyrir því að þær yrðu í rekstri næsta sumar og þar af leiðandi þyrfti að þjálfa flugmenn í það en við ætluðum að nýta veturinn í það. Við erum að bregðast við þessari óvissu með því að aðlaga flölda flugmanna,“ segir Bogi.

Aðspurður hvort fleiri breytingar séu í vændum á rekstri Icelandair segir Bogi að svo sé ekki en að félagið sé að skoða allt í sínum rekstri.

„Við sjáum ekki fyrir okkur aðrar stórar breytingar en við erum stöðugt að skoða hvað við getum gert betur í okkar rekstri. Við höfum verið að gera margar breytingar eins og til dæmis að fækka stjórnendum. Markmiðið er að koma félaginu í gegnum þetta þannig að það verði í stakk búið til þess að grípa tækifærið þegar storminn lægir.“

Gera ráð fyrir aukningu á flugferðum í vetur

Ekki liggur fyrir hvort eða hversu marga starfsmenn Icelandair missir við breytingarnar.

„Við vonumst auðvitað til þess að flestir verði áfram hjá okkur. Flugmenn gætu hins vegar óskað eftir því að fá launalaust leyfi og flogið fyrir aðra yfir veturinn.“

Breytingarnar á starfshlutfalli flugmanna og flugstjóra eru tímabundnar, frá 1. desember 2019 til 1. apríl 2020. Eftir það geta flugmenn unnið fullt starf.

Verður flogið minna eða á færri áfangastaði í vetur?

„Nei, við erum að gera ráð fyrir aukningu í vetur miðað við árið í fyrra. Þessi ákvörðun snýst frekar um minni þjálfunarþörf í vetur vegna óvissunnar um MAX vélarnar sem við ætluðum að taka inn í vor. Við erum ekki að gera ráð fyrir samdrætti í leiðakerfinu,“ segir Bogi.

Félagið er þegar í viðræðum við Boeing um að fá það fjárhagslega tjón sem hlotist hefur af kyrrsetningu vélanna bætt. Icelandair tapaði um 11 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins samkvæmt hálfsársuppgjöri félagsins sem var birt í byrjun ágústmánaðar. Bogi segir að Icelandair muni fara fram á við Boeing að fá allt tjón bætt.