„Svo kaldir dagar þegar komið er þetta langt fram á sumar hafa ekki orðið á Akur­eyri í 30 ár,“ segir Einar Svein­björns­son, veður­fræðingur á Face­book-síðu Bliku.

Svalt hefur verið á landinu síðustu daga og segir Einar að trú­lega sé um að ræða kaldasta kaflann á öldinni sem gerir eftir sól­stöður, 21. júní.

Í færslu á Face­book-síðu Bliku kemur fram að á Akur­eyri hafi meðal­hiti sólar­hringsins verið þessi:

Fim 23. júní: 5,5°C

Fös 24. júní: 5,6°C

Lau 25. júní: 5,9°C

Sun 26. júní: 5,4°C

Einar segir að svo kaldir dagar þegar komið er þetta langt fram á sumar hafi ekki orðið á Akur­eyri frá því á tíunda áratug liðinnar aldar.

„1997 var líka kalt um þetta leyti, en sjónar­mun hærri hiti.

Seint í júní 1994 var á­líka kaldur dagur og nú en hann var stakur. Í kjöl­far Jóns­messu­hretsins 1992 sem áður hefur verið greint frá, var klár­lega kaldara en nú 2022,“ segir Einar og bætir við að þetta sé ó­venju­leg kulda­tíð en ekki eins­dæmi.