Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir brýna þörf á varaafli og að orð forstjóra Landsnets í Fréttablaðinu í gær hafi komið sér á óvart.

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, hafnaði því alfarið að Landsnet uppfyllti ekki kröfur um rafmagnsflutninga til Vestmannaeyja, skerðingar undanfarinna ára séu vegna truflana uppi á landi en ekki vegna bilana í sæstrengjunum. Verið sé að vinna í auknu öryggi

Fundað hafi verið um stöðuna fyrir tveimur árum og viðurkennt að margt þyrfti að bæta. „Fundað var reglulega með Landsneti og lá fyrir skýrsla sem unnin var af hagaðilum um lausn á vandanum. Rúmu ári eftir niðurstöðu og skýrslu hefur Landsnet enn ekki brugðist við og er málið stopp,“ segir Íris.

„Það er vika síðan hér var rafmagnsleysi í fimm klukkutíma og Landsnet gat ekki flutt til Eyja næga raforku til að halda rafmagni og hita á húsum og fyrirtækjum. Rafmagnsleysi á miðri loðnuvertíð.“

Íris segir það ekki ganga upp að flytja færanlegar varaaflstöðvar út í Heimaey í aftakaveðri, varaaflið þurfi að vera á staðnum.

„Það er ekki frekja að ætlast til þess að árið 2022 sé varaafl til staðar á staðnum fyrir samfélag sem telur rúmlega 4.400 manns,“ segir Íris.