Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, sagði að ástæðan fyrir því að kostnaður við skimum hafi verið rúmum 500 milljónum meiri en tekjurnar af ferðamönnum, væri vegna þess að ekki var talið forsvaranlegt að láta ferðamenn greiða fjárfestingarkostnaðinn við verkefnið.
Heilbrigðisráðuneytið vann kostnaðarmatið og segir hann að margir óvissuþættir hafi verið uppi um hvað skimun á landamærunum myndi kosta. Ákveðið var að hún myndi standa yfir í 100 daga, liðlega þrjá mánuði, og voru heildarútgjöldin metin tveir og hálfur milljarður.
Áætlað var að gjaldið, sem er lagt á farþega á leið til landsins, myndi skila tveimur milljörðum en reiknað var með tvö þúsund farþegum, í hundrað daga, sinnum tíu þúsund krónur. Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna í dag.
„Ástæðan fyrir því að það munaði þarna hálfum milljarði á kostnaðarhliðinni og tekjuhliðinni samkvæmt þessum útreikningum sem lágu til grundvallar var hreinlega sú að það var ekki talið forsvaranlegt að leggja fjárfestingarkostnað að öllu leyti á ferðamenn í þessa þrjá mánuði þarna var gert ráð fyrir kostnaði við við við innviði við búnað sem mun væntanlega nýtast eftir að þessu viðmiðunartímabili lýkur,“ sagði Páll á fundunum.
Tekjurnar sem koma frá ferðamönnum er ætlað að mæta útjöldum ríkisins s.s laun starfsmanna við sýnatöku, búnaður til sýnatöku, pinnar og glös. Þær greiða einnig flutningskostnað með sýni, til dæmis akstur og í sumum tilvikum flug milli landshluta, svo dæmi séu tekin.