Alls voru 124 með virkt kórónaveirusmit hérlendis í gær samkvæmt tölum frá almannavörnum. Ekki höfðu verið fleiri með virkt smit á landinu frá því 27. apríl, eða fyrir fimmtán vikum. Þá voru þeir 140 talsins.

RÚV greindi frá því gærkvöldi að landlæknir í Noregi legði til að Ísland yrði sett á lista yfir þá sem þurfa í tíu daga sóttkví við komu til Noregs. Er það vegna þess að nýgengi smits hér er komið í 25,9 en Noregur miðar við að nýgengið sé ekki yfir 20.

Á upplýsingafundi almannavarna í gær kom fram að þrír væru nú á sjúkrahúsi með COVID-19. Þar af einn sem er sagður vera á tvítugsaldri og var lagður inn á sunnudaginn. „Hann er ekki á gjörgæslu en einn einstaklingur sem hefur verið talað um áður er á gjörgæslu,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. „Alls hafa því fjórir þurft á spítalavist að halda í þessari lotu faraldursins,“ bætti hann við.