Nú þegar fyrsta helgin í samkomubanni er skollin á lék okkur forvitni á að vita hvað fólk hefur fyrir stafni.

Hvað á að gera um helgina?

Um helgina verð ég auðvitað bara í neðanjarðarbyrginu mínu að stærðarraða niðursuðuvörum og sótthreinsa klósettpappír. Eða svoleiðis. Maður heldur sig auðvitað að mestu heima, reynir að forðast helstu útihátíðir, barnaafmæli og baðsvæði. Ætli maður dragi svo ekki bara fram útvegsspilið, hámhorfi á gamlar veðurfréttir og kenni sjálfum sér síðan eitthvað gott tungumál.

Þurftirðu að breyta einhverjum plönum?


Ég þarf litlu að breyta af mínum plönum — öðru en því að auðvitað fara í tilhæfulausan sleik við ókunnuga — en draumaferðin til Hawaii um páskana þarf að bíða betri áratugar.

Hvernig leggst samkomubannið í þig?

Samkomubannið passar auðvitað ágætlega við mína innbyggðu félagsforðun, en áhrifin eru vissulega svakaleg. Það er nærtækt fyrir mig að nefna tónlistarfólk, sem sér fram á algert tekjutap næstu mánuði. Það er búið að aflýsa öllu. Hvort sem það eru stórtónleikar eða kristilegt brauðtertuát.

Ég hvet því sem flesta til að streyma íslenskri tónlist og styðja eftir föngum við íslenska menningu og listafólk, sem stöðugt hefur gefið okkur af sér — en situr nú bara heima og gefur upp vonina. Sjálfur er ég búinn að raða upp öllum mínum ljúfustu lögum á spilunarlista á öllum tiltækum snjalltækjum heimilisins og læt þau rúlla daglangt — og vonast þannig til að eiga mögulega fyrir næsta rafmagnsreikningi.


Hvað gerirðu til að halda andanum uppi þessa dagana?

Að því sögðu er mikill samhugur í fólki. Allir vilja gera sitt besta og komast í gegnum þetta. Nú streymir til dæmis list frá öllum heimilum, tónleikastöðum og samkomuhúsum, því auðvitað er ekkert hægt að slökkva á sköpunarkraftinum eða setja loftferðabann á hugarflugið. Það er auðvitað viss fegurð í því hvernig sundrungin sameinar okkur og leiðir hugann á óvænta staði.

Það er alltaf hollt að hugsa hlutina aðeins upp á nýtt, finna nýjar leiðir og lausnir. Vonandi tekur þetta samt fljótt af — svo við þurfum ekki að ofhugsa hlutina og fara að éta helvítis klósettpappírinn.