Gylfi Björn Helgason, formaður stjórnar Félags fornleifafræðinga, segir að ekki sé komið svar frá Umboðsmanni Alþingis eftir að félagið sendi inn ábendingu um brot á stjórnsýslulögum við ráðningu nýs þjóðminjavarðar.

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, skipaði Hörpu Þórsdóttur í stöðuna á dögunum án þess að auglýsa starfið.

„Það er búið að móttaka ábendinguna okkar og efnisnefnd er að kanna málið, hvort það verði tekið til rannsóknar,“ segir Gylfi.

Málið var tekið fyrir á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í gær. Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður nefndarinnar, segir að það séu um leið fleiri mál til skoðunar.

„Þó svo að þessi ákvörðun sé nýjasta dæmið, þá eru fleiri dæmi hjá ráðherrum í þessari ríkisstjórn um slíka hegðun. Við ákváðum að afla gagna og undirbúa næsta fund þar sem við ákveðum hvernig við tökum á þessu máli,“ segir Þórunn.